151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[14:10]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið en ítreka það sem áður hefur verið sagt, að þeir einstaklingar sem hingað koma á ferðalögum og eru ekki búsettir hér og hafa ekki verið búsettir hér a.m.k. síðastliðna sex mánuði, eru ekki sjúkratryggðir á Íslandi, sama hver læknisþjónustan er. Hvort sem um er að ræða hálsbólgu, fótbrot eða þungunarrof, þá er það ekki ríkissjóður sem greiðir fyrir læknisheimsóknina. Það er sjúklingurinn sjálfur sem þarf að greiða fyrir heimsóknina fullu verði og það er sjúklingurinn sjálfur sem sækir svo endurgreiðsluna. Umhyggja hv. þingmanns fyrir hönd ríkissjóðs er af hinu góða en í þessu tilviki er það sjúklingurinn sjálfur sem greiðir fyrir þjónustuna, þannig að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því hér. En ég deili alveg áhyggjum þingmanns af stöðu ríkissjóðs og áhyggjum af stöðu heilbrigðiskerfisins. En það er óþarfi að flækja þær áhyggjur inn í þetta mál af því að sjúklingurinn sjálfur greiðir fyrir þjónustuna.