151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[14:56]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvörin. Ég verð bara að segja alveg eins og er að mér finnst þungunarrof vera orð sem notað er til að setja fóstureyðingu í fallegri umbúðir. En það segir ekki, þó að ég noti orðið fóstureyðing, að ég sé á móti fóstureyðingum. Ég er það ekki. Ég get skilið fóstureyðingar og styð þær ef kona verður fyrir nauðgun, ef eitthvað er að barni eða móður, en það er mín skoðun að það eigi helst að vera búið að gera slíka aðgerð fyrir 12. viku. Í skilgreiningum á fóstri kemur fram að öll líffæri eru þá byrjuð að myndast, komin á frumstig. Það er bara sú skoðun sem ég hef.

Það hefur líka skelft mig, og skelfir mig enn þegar við höfum rætt um að nota orðið þungunarrof í stað orðsins fóstureyðing, að það var umræða um að leyfa þá aðgerð fram á síðustu mínútu. Það finnst mér skelfileg tilhugsun. Og þegar við fórum í 22 vikur fannst mér það líka skelfileg tilhugsun. Ég spyr hv. þingmann: Er hún þeirrar skoðunar að engin takmörk eigi að vera þarna? Að það sé réttur konunnar að fara í slíka aðgerð alveg fram á síðustu stund meðgöngu?

Ég spyr mig líka: Er það heilbrigðisvandamál að kona sé ólétt? Fylgja því einhver vandamál fyrir heilbrigðiskerfið að kona sé ólétt?