151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[15:20]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir svarið. Hótelherbergi, að fara þangað eftir lyfjagjöf. Ég segi fyrir mitt leyti: Ef ég væri í sporum konu, sem ég get ekki sett mig í, sem þarf að taka þá ákvörðun að fara í fóstureyðingu, þá get ég ekki ímyndað mér það að fá lyfjagjöf og fara svo á hótelherbergi. Ég myndi telja að viðkomandi kona þyrfti miklu meiri umönnun. Þetta er andlegt áfall, þetta er líkamlegt áfall. Þetta hlýtur að vera gífurlegt áfall í fyrsta lagi að þurfa að vera í þeirri aðstöðu, hugsið ykkur, að þurfa að taka slíka ákvörðun, og síðan að fara í þetta og ástandið eftir á. Við verðum þá a.m.k. að hafa manndóm í okkur til að sjá til þess að viðkomandi konur fái alla þá þjónustu sem þær þurfa á að halda bara til þess að komast í gegnum þetta áfall sem það hlýtur að vera að fara í fóstureyðingu. Þær fái alla þá hjálp sem hægt er að fá. Þá spyr ég mig: Hversu langt þurfum við að ganga í því efni? Ég segi: Eins langt og við þurfum. Ég skil þetta ekki og ég er eiginlega orðlaus yfir því og veit ekki hvernig ég á að tjá það, að setja mig í spor þeirra kvenna sem hafa þurft að fara í þetta. Það hlýtur að vera ein skelfilegasta lífsreynsla sem þær hafa nokkurn tímann lent í.

Þingmaður hristir hausinn og þá hugsa ég með mér: Vá, þá misskil ég þetta kannski á einhvern hátt. Það væri gott að fá svar frá hv. þingmanni.