151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[15:36]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir andsvarið. Við erum algerlega sammála um tjáningarfrelsið og ég er líka algjörlega sammála honum um uppgang nasismans. Það er eiginlega skelfilegasta fyrirbærið sem er í gangi núna. Því miður virðist hann vera að aukast aftur. Maður hefur alltaf áhyggjur af því að sagan endurtaki sig, hún virðist gera það. Þótt við skráum allt og setjum allt í töluð orð og bækur virðumst við samt hafa skammtímaminni að því leyti til að við virðumst alltaf endurtaka sömu vitleysuna aftur og aftur. Við höfum orðið vör við það í þessum þingsal að við erum alltaf í sama farinu og þokumst lítið áfram, bæði í réttindum öryrkja, eldri borgara, kvenna og í fleiru. En það á líka að vera góð umræða um þessa tilteknu þingsályktunartillögu sem liggur hér frammi, ég held að það sé heilbrigt og eðlilegt. Við eigum ekki að líta á svona mál, sem varðar, hvort sem við köllum það þungunarrof eða fóstureyðingu, sem léttvægt. Þetta er alvarlegt mál. Ég hef lesið frásagnir kvenna og ég veit að það eru ekki allar konur sem finna fyrir létti. Það er svo langt í frá. Maður hefur heyrt skelfilegar sögur af konum sem hafa aldrei borið þess bætur að fara í gegnum þetta ferli. Síðan eru aðrar sem við vitum sem hafa ekki viljandi heldur hreinlega misst fóstrið á meðgöngutímanum. Þannig að þetta er ekki léttvæg umræða og ekki einhliða. Það eru margar hliðar á þessu máli og okkur ber skylda til þess að ræða það vel og ítarlega.