151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[15:47]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Stundum getur maður orðið algjörlega orðlaus, það liggur við. Ég segi fyrir mitt leyti að ég held að það myndi nú heyrast hljóð úr horni ef ég kæmi hér upp í þennan ræðustól og segði að ég talaði einum rómi rétt og 100% í nafni allra karlmanna í landinu og skoðana þeirra. Ég gæti það ekki. (Gripið fram í.) Ekki myndi mér detta það í hug í eina mínútu. En að koma hingað upp og segja, ef við erum ósammála einhverju, að það sé bara rétt, að það séu allar konur sammála þessu.

Hvað hefur hv. þingmaður fyrir sér í því að allar konur styðji þetta? (ÞorbG: Ég sagði það aldrei.) Jú, þú sagðir: Rétt allra kvenna. Og þar af leiðandi ertu að tala fyrir allar konur. Ég mótmæli því bara að við karlmenn megum ekki koma hingað upp og ræða hlutina á okkar forsendum.

Þú segir að það sé í lagi þegar trúarbrögð liggja að baki. Hefði þá verið í lagi að ég kæmi hérna upp og hefði algerlega trúað því að við ættum að fara aftur í fornöld og að það ætti að kúga konur? Þá væri það í lagi af því að trúarbrögð lægju að baki, þá væri hægt að rökræða við mig um það?

Það er algjörlega út í hött. Ég hef bara aðra skoðun og ég er bara að viðra mína skoðun um það og ég stend við mína skoðun og hún er rétt. Ég má hafa hana hérna. Að tala niður til okkar vegna þess og segja að af því að við höfum ekki trúarbrögðin á bak við okkur þá megum við ekki hafa þá skoðun, er auðvitað alveg út í hött.