151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

launasjóður íslensks afreksíþróttafólks.

116. mál
[17:04]
Horfa

Flm. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um launasjóð íslensks afreksíþróttafólks. Að tillögunni standa, auk þeirrar sem hér stendur, þingflokkur Samfylkingarinnar, hv. þingmenn Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Logi Einarsson og Oddný G. Harðardóttir.

Þingsályktunartillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram frumvarp til laga um launasjóð fyrir afreksíþróttafólk í einstaklings- og hópíþróttum. Tilgangur sjóðsins verði að auka fjárhagslegt öryggi afreksíþróttafólks og auka möguleika þess á að helga sig íþróttaiðkun sinni. Ráðherra leggi frumvarpið fram eigi síðar en á 152. löggjafarþingi.“

Þessi þingsályktunartillaga var áður lögð fram á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga. Með tillögunni er lagt til að mennta- og menningarmálaráðherra verði falið í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra að undirbúa og leggja fram frumvarp til laga um launasjóð íslensks afreksíþróttafólks. Tilgangurinn er að skapa afreksíþróttafólki í landinu fjárhagslegan grundvöll til iðkunar á íþrótt sinni. Horfa mætti til launasjóðs stórmeistara í skák og launasjóðs listamanna þar sem starfslaun eru greidd umsækjendum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Með því að greiða afreksíþróttafólki starfslaun aukast réttindi þess og öryggi. Mikilvægt er að við undirbúning og útfærslu starfslaunasjóðs afreksíþróttafólks verði unnið náið með Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands og sveitarfélögunum.

Herra forseti. Árangur íþróttafólks okkar hefur vakið athygli um heim allan. Við eigum afreksfólk í fjölmörgum íþróttagreinum sem aukið hefur hróður Íslands á Ólympíuleikum, heimsmeistaramótum og Evrópumótum. Flutningsmenn tillögunnar telja að tímabært sé að stjórnvöld styðji betur við íslenskt íþróttafólk, fyrirmyndir æsku landsins hvort tveggja í einstaklings- sem og hópíþróttum.

Afreksíþróttafólk á Íslandi gaf frá sér yfirlýsingu varðandi kjör sín fyrir tæpu ári síðan, eða í desember 2019. Í yfirlýsingunni segir að eftir íþróttaferilinn standi margt íslenskt afreksíþróttafólk uppi með skuldir á bakinu og að öllu leyti réttindalaust. Afreksíþróttafólk hafi ekki lífeyrisréttindi, ekki stéttarfélagsaðild, ekki atvinnuleysisbótarétt, ekki aðgengi að sjúkra- og starfsmenntasjóði eða réttindi til fæðingarorlofs, svo eitthvað sé nefnt.

Í skýrslu vinnuhóps frá 2017 um endurskoðun á reglum afrekssjóðs ÍSÍ er t.d. fjallað um mikilvægi þess að afreksíþróttafólk geti einbeitt sér að æfingum og keppni samhliða því að njóta lágmarkstekna vegna framfærslu og nauðsynlegra útgjalda. Þar segir:

„Bjóða þarf upp á beina styrki til íþróttamanna í formi mánaðarlegra „framfærslustyrkja“ þar sem íþróttamaðurinn hefur fullan ráðstöfunarrétt á tekjunum.“

Af þessum orðum úr skýrslunni má glöggt sjá að þeir styrkir sem afreksíþróttafólki hefur staðið til boða hafa iðulega verið notaðir í beinan kostnað íþróttafólksins vegna þátttöku á alþjóðlegum mótum erlendis en ekki framfærslu á æfingatímanum, undirbúningstímanum, fyrir að vera okkar fulltrúar á erlendri grundu.

Afreksíþróttafólk á þess kost að sækja um styrki frá afrekssjóði ÍSÍ en meginhlutverk afrekssjóðsins við uppbyggingu afreksíþrótta á Íslandi er að styrkja sérstaklega sérsamböndin fjárhagslega og með því íslenskt afreksíþróttafólk við að ná árangri í alþjóðlegri keppni. Þessir styrkir til afreksíþróttafólks eru þannig eini opinberi stuðningurinn sem það hefur kost á að nýta sér til að fjármagna keppnis- og æfingaferðir, en fjárhæðirnar þarna eru af þeim toga að lítið stendur eftir, ef eitthvað, þegar beinn kostnaður hefur verið greiddur.

Þannig borgar afreksíþróttafólkið okkar, sem kemur fram fyrir okkar hönd, oft með sér í þeim ferðum sem það fer fyrir okkar hönd. Þessir styrkir eru eru ekki skilgreindir sem laun. Því setur formið sem og fjárhæðir styrkjanna afreksíþróttafólk í erfiða stöðu og leiðir oftar en ekki til þess að það þarf að sinna launuðum störfum meðfram æfingum til að fjármagna sig á meðan keppinautar erlendis geta alfarið helgað sig íþrótt sinni. Þar með stendur íslenskt afreksíþróttafólk ekki jafnfætis þeim sem eru helstu keppinautar þess á heimsvísu.

Þegar þessi ræða er flutt er t.d. íslenska kvennalandsliðið í körfubolta statt í Grikklandi á undanmóti vegna Evrópumóts í þeirri íþróttagrein. Þar eru nú fjögur lið að keppa og ég hef fengið það staðfest að innan þess liðs er enginn, ekki einn einasti leikmaður, sem fær greitt fyrir stunda íþrótt sína. Allir leikmennirnir þurfa að eiga það við vinnuveitanda sinn að gefa leyfi í þann tíma sem það tekur að fara utan, taka þátt í mótinu, vera í sóttkví út af Covid, eiga það á hættu að smitast á mótinu þar sem þrjú af fjórum liðum innihalda smitaða leikmenn, og koma heim aftur og fara í sóttkví. Allt þetta þurfa þessir afreksíþróttamenn, sem eru að keppa í A-landsliði á þessari stundu, að borga úr eigin vasa, og taka út frírétt sinn til að taka þátt fyrir Íslands hönd á erlendri grundu.

Við framlagningu þingsályktunartillögunnar á 150. löggjafarþingi bárust umsagnir frá íþróttasamböndum sem allar voru mjög jákvæðar. Mikilvægi málsins hefur aukist eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á. Alþingi barst að auki hvatning frá íþróttafólki undir lok síðasta þings um að tillagan næði fram að ganga, en því miður gafst ekki tækifæri til þess vegna margra mála er tengdust beinlínis Covid. Öllum stórmótum hafi verið frestað og því væri staða afreksíþróttafólks, sem stæði nú í undirbúningi vegna stórmóta, enn verri en áður þar sem heilt ár bættist nú við án tekna vegna undirbúnings. Einnig kom fram að margt íþróttafólk hefði nú þegar átt erfitt með að fjármagna undanfarin ár frá síðasta stórmóti. Við það bætist að færri styrkir frá fyrirtækjum eru til skiptanna sökum bágrar efnahagsstöðu í kjölfar kórónuveirufaraldursins.

Herra forseti. Afreksíþróttafólk hefur margoft bent á að það sé erfitt að keppa á heimsmælikvarða án launa og réttinda. Með tillögunni er ætlun flutningsfólks að bregðast við þeirri stöðu og styðja við afreksíþróttafólk svo að það standi jafnfætis keppinautum sínum á erlendri grundu. Fyrirmyndirnar eru til. Við erum með starfslaun listamanna. Við erum með starfslaun skákfólks og því ættum við núna að samþykkja þessa þingsályktunartillögu og fela hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að hefja undirbúning að frumvarpi til laga um launasjóð fyrir afreksíþróttafólk.

Að þessu sögðu legg ég til að þessi tillaga fari til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.