151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

störf þingsins.

[10:32]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það er skoðun mín að hver eigi að ráða sínum næturstað. En einhverra hluta vegna erum við með mjög strangar reglur þegar kemur að því að ráða sínum næturstað inn í eilífðina. Þar hefur ríkisvaldið ákveðið að við skulum láta jarðsetja okkur í kirkjugarði, jú, eða við getum sótt um að láta að brenna líkamsleifar okkar og þá skuli þær jarðsettar með tilteknum hætti. Það er sem sagt nánast ómögulegt að fá að renna saman við hafið eða fjöllin þótt það kunni að vera það sem við óskum helst.

Virðulegur forseti. Ég hef nú lagt fram í annað skipti frumvarp þess efnis að liðka fyrir þessu í lögum. Ég óska svo sannarlega eftir því að fá að mæla fyrir því frumvarpi svo fljótt sem verða má. Ég tel mikilvægt að við höfum frelsi þegar kemur að þessum málum eins og svo mörgum öðrum. Ég hef lítinn skilning á því að ríkisvaldið og stjórnsýslan þurfi að fara með þessi mál. Það hefur færst mjög í aukana að fólk óski eftir því að láta brenna sig í stað þess að jarðsetja og við sjáum ákveðna þróun í þeim efnum. Ég átta mig á því að kirkjugarðarnir okkar eru mikilvægt menningarlegt og samfélagslegt fyrirbrigði og mér finnst mikilvægt, sérstaklega á jólum og öðrum hátíðisdögum, að fara í kirkjugarðinn og minnast þeirra sem liðnir eru, minna á ástina. En mér finnst líka mikilvægt að fá að ráða því þegar þar að kemur hvar og hvernig mínir aðstandendur munu minnast mín.

Hæstv. forseti. Ég vona að ég fái tækifæri til að mæla fyrir þessu máli fljótt og að hv. allsherjar- og menntamálanefnd muni taka málið fyrir.