151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Fréttir af riðuveiki fjár eru mjög sláandi um þessar mundir og bændur verða fyrir miklu tjóni. Nú er skoðað hvernig unnt sé að koma til móts við bændur sem þurfa að skera niður vegna riðu. Bæturnar eru sagðar úreltar og ekki í samræmi við gildandi samning milli stjórnvalda og bænda. Þegar fé er skorið niður vegna riðu fá bændur greiddar bætur vegna þess tjóns sem þeir verða fyrir, svokallaðar niðurskurðarbætur. Að auki eru bætur sem snúa að afurðatapi á meðan þeir eru fjárlausir og síðan er kostnaður vegna hreinsunarstarfs og búnaðar sem þarf að eyða og bæta greiddur. Niðurskurðarbætur eiga líka að standa undir þeim kostnaði sem bændur verða fyrir þegar þeir kaupa sér nýjan bústofn og hefja búskap á ný.

En bætur fyrir niðurskurð á hverjum dilk nema ekki nema helmingi af verði á líflambi, kostnaður er helmingi lægri í gegnum sláturhús. Unnsteinn Snorri Snorrason, framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda, segir að kallað hafi verið eftir því um talsvert skeið að reglugerðin um bæturnar sé endurskoðuð enda sé hún komin til ára sinna. Tjónamatið sé ekki í takt við það sem gerist í dag, bæturnar eru lægri en kostnaður við að kaupa líflömb. Að auki sé reglugerðin ekki uppfærð í samræmi við gildandi samning milli stjórnvalda og bænda svo að hægt sé að fá greiðslur sem annars fengjust út úr þeim samningi.

Eftir niðurskurð tekur við mikið hreinsunar- og uppbyggingarstarf. Síðan eru tvö ár í fjárleysi. Þá er hægt að kaupa ásetningslömb, gimbrar og hrúta af hreinum svæðum og hefja búskap á ný. Til er aðferð sem heitir erfðagreining eða arfgreining á búpening sem þá er hægt að rækta úr fé en það kostar mikið og hafa bændur ekki efni á því úr sínum eigin vasa. (Forseti hringir.) En það er eitthvað sem þeir leggja til að verði skoðað mun betur þannig að ríkissjóður gæti komið til móts við þá í þeim kostnaði.