151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Eins og oft áður finnst mér tilefni til þess við þetta tækifæri, þegar við þingmenn fáum tækifæri til að ræða störf þingsins, að minna á að við erum í miðjum miklum efnahagslegum erfiðleikum. Hagspá Alþýðusambands Íslands kom út í gær og áréttaði það sem hefur svo sem komið fram í öðrum hagspám að undanförnu, að búast megi við að samdráttur í hagkerfinu á þessu ári verði um 8%, sem er mesti samdráttur á einu ári frá árinu 1920. Það er ágætt að við setjum hlutina svolítið í þetta samhengi og þegar við ræðum viðfangsefni okkar hér, hvort sem er á útgjaldahlið eða annars staðar, að við áttum okkur á því að þetta er veruleikinn sem við stöndum frammi fyrir.

Það kemur líka fram í hagspá Alþýðusambandsins, sem mér sýnist hvorki vera tiltakanlega svartsýn né bjartsýn heldur frekar hófstillt og raunsæ, að viðsnúningur á næsta ári verði fremur veikur, þ.e. að jafnvel þó að örlítill hagvöxtur gæti skapast á næsta ári þá fer sá hagvöxtur hægt af stað. Það þurfum við líka að hafa í huga þannig að jafnvel þó að eitthvað færi að glæðast í sambandi við ferðalög milli landa og ferðaþjónustu og annað þess háttar, þá er því miður ekki útlit fyrir annað en að viðsnúningurinn verði hægur og við verðum í afleiðingum þessa áfalls á næstu árum. Það sem ég vil hins vegar leggja áherslu á er að þegar við veltum fyrir okkur hvernig við getum náð lífskjörum hér aftur upp, vegna þess að við munum verða fyrir töluverðri lífskjaraskerðingu, þá þurfum við að huga að því hvernig við gerum það, og við gerum það ekki öðruvísi en að efla atvinnuvegina og gefa atvinnulífinu svigrúm til að vaxa og dafna.