151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Það er fallegt í faðmi fjalla blárra fyrir vestan. En það er ekki bara rómantíkin ein, náttúran getur verið hörð í horn að taka. Oft eru veður erfið og stríð, samgöngur stopular að vetrarlagi, vegalengdir miklar og talsverð einangrun. Við þessar aðstæður treysta Vestfirðingar því mjög á flug. Þeir hafa verið heppnir með þjónustuaðila í hálfa öld. Sama flugfélag hefur þjónað kjálkanum og ferjað fólk og frakt á milli staða og um landið allt.

Íbúum, fulltrúum sveitarfélaga og fyrirtækja brá því í brún á dögunum þegar kvisaðist út að búið væri að bjóða út flugið og nýr aðili myndi mæta til leiks innan fárra daga. En svona er lífið, segir Vegagerðin, sem er útboðsaðili. Lægsta boð verður að gilda. Þrír buðu í tilgreindar flugleiðir og enginn þeirra uppfyllti raunar skilyrði útboðsins, ef rétt er með farið. Þá var byrjað að hnoðast með forsendur og skilyrði sem endaði með því að kærunefnd útboðsmála sagði: Nei, svona gerum við ekki. Hún lýsti því yfir að Vegagerðin hefði brotið lög í vali sínu á lægstbjóðanda og átelur vinnubrögð og telur þau ófullnægjandi.

Var þá ekki einboðið, herra forseti, að staldra við, skoða málin og bjóða út aftur, gera þetta eins og á að gera það? Nei, áfram var haldið og þumbast og íbúarnir fyrir vestan vita ekkert hvaðan á þá stendur veðrið annað en að þeir sjá nú að öllu óbreyttu á bak þrautreyndum þjónustuaðila sem gjörþekkir aðstæður og býr yfir flugflota sem er raunar sérvalinn fyrir vestfirskar aðstæður. Það er almennur kurr á sunnanverðum Vestfjörðum. Íbúar telja þjónustuna í uppnámi og krefjast samráðs og upplýsinga, sem ekkert hefur verið.

Herra forseti. Það er brýnt að tryggja áfram góðar, öruggar flugsamgöngur fyrir vestan í sátt við íbúana og vanda til opinberra útboða.

Ég spyr: Vakir eitthvað annað fyrir stjórnvöldum? Geta þau stutt svona fúsk?