151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í þrjú ár hefur ríkisstjórn Katrínar, Bjarna og Sigurðar ákveðið að auka fátækt fatlaðs fólks og langveiks í stað þess að bæta kjör þess. Stór hópur öryrkja býr við sárafátækt. Það er fáránlegt fjárhagslegt ofbeldi að um áramótin verði munurinn á örorkulífeyri og lágmarkslaunum orðinn 86.000 kr. Frá árinu 2007 hefur bilið á milli örorkulífeyris og lágmarkslauna stöðugt breikkað eins og oft hefur verið bent á. Í valdatíð núverandi ríkisstjórnar hefur ekkert verið gert til að bregðast við kjaragliðnun undanfarinna ára hjá lífeyrislaunafólki heldur hefur bilið þvert á móti breikkað enn meira og það þrátt fyrir að ríkisstjórn eftir ríkisstjórn lofi öðru fyrir kosningar.

Eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem er efst á blaði er að útrýma fátækt. Nú þegar Bjarni hefur lagt fram sitt síðasta fjárlagafrumvarp á kjörtímabilinu er enga breytingu að sjá heldur öfugt; aukningu fátæktar og harðari sveltistefnu.

Áratugum saman hefur dregið sundur með lágmarkslaunum og lífeyrislaunum. Í fjárlögum mun lífeyrir almannatrygginga hækka um helming af réttri upphæð eða um 3,6% núna um áramótin. Nú segir fjármálaráðherra að það sé ekkert mál að hækka þá sem eru á strípuðum bótum. Sá hópur sé fámennur. Hvers vegna er hann þá ekki búinn að því? Nei, allt er hér af sama meiði. Sveltistefna gegn veiku fólki, eldri borgurum og börnum.

Biðlistar. Snilldin hjá þessari ríkisstjórn eru biðlistar eftir biðlista. Fólk fer á biðlista til að komast á biðlista. Hvað verður næsta snilldarráðið? Þrefalt? Biðlistar til þess að komast á biðlista til þess að komast á biðlista? Og hverjir eiga að vera á þessum biðlistum? Jú, veik börn og eldri borgarar þessa lands. Skömmin er þessarar ríkisstjórnar og kominn tími til að hún hysji upp um sig buxurnar og hætti að níðast á veiku fólki og hvað þá með nauðungarflutningum á fötluðu fólki.