151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[11:07]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þetta mikilvæga tækifæri til að fara yfir þessi mál hér í þingsal. Umhyggja, sveigjanleiki og þrautseigja hafa verið lykilorðin í öllu skólastarfi á tímum Covid-19. Rík áhersla hefur verið lögð á þetta þrennt ásamt því að huga sérstaklega að virkni og líðan nemenda og stöðu viðkvæmra nemendahópa. Ég get ekki sagt það nógu oft: Afrek íslensks menntakerfis á tímum Covid eru ómælanleg. Skólastjórnendur, kennarar og ekki síst nemendur hafa sýnt ótrúlegt hugrekki og elju og þeim verður aldrei þakkað nægilega vel fyrir.

Þegar veiran kom upp hér á landi lagði ég ríka áherslu á samráð og samtal. Við í ráðuneytinu höfum því haldið á annað hundrað fjarfundi með helstu hagsmunaaðilum allra skólastiga og íþrótta-, frístunda- og æskulýðsstarfs og farið yfir álitamál og helstu mál sem eru á döfinni hverju sinni. Við höfum einnig verið í nánu samstarfi við heilbrigðisráðuneytið og sóttvarnalækni um þau mál sem brenna á menntakerfinu og um möguleika á að bjóða nemendum meira staðnám með grímunotkun, nándarreglum og fjöldatakmörkunum, allt innan þeirra sóttvarnareglna sem gilda hverju sinni. Á grundvelli þessa víðtæka samráðs hafa verið gefnar út leiðbeiningar um skólastarf með reglubundnum hætti, allt eftir því hver staðan er hverju sinni. Allir aðilar hafa tekið höndum saman, m.a. með sameiginlegri yfirlýsingu til að stuðla að því að skólastarf fari fram með eins hefðbundnum hætti og frekast er unnt og að réttur nemenda til náms verði tryggður. Mikil áhersla er á að leita lausna til að draga úr neikvæðum áhrifum veirunnar á skólastarf.

Virðulegur forseti. Nú mun ég fara yfir skólastigin. Ég byrja á leik- og grunnskólum. Samkvæmt niðurstöðum úr mati Reykjavíkurborgar á skólastarfi í leik- og grunnskólum gengur skólastarf almennt vel. Hugur er í starfsfólki, nemendur mæta vel og foreldrar eru ánægðir. Skólastjórnendur upplifa þó eðlilega að takmarkanir á skólastarfi undanfarnar vikur hafi tekið á og skapað álag á skólastarf. Nemendur í leikskólum og á yngsta stigi grunnskóla sækja skólann allan daginn að jafnaði og fullt starf er á frístundaheimilum. Rafrænt starf er í félagsmiðstöðvum og einstaklingsvinna með börn sem eiga við vanda að etja. Allir nemendur á mið- og unglingastigi mæta í skóla daglega. Miðstig fær 25–30 kennslustundir á viku og unglingastigið fær 20–30 kennslustundir. Í þeim tilvikum þar sem skóladagur er skertur er námið stutt af netkennslu.

Það eru helst íþróttir, sund, list- og verkgreinar, sem hafa, því miður, fallið niður hjá grunnskólum eftir að aðgerðir voru hertar. Sömu sögu má segja af skólastarfi annars staðar á landinu. Nokkrar undanþágur hafa verið veittar frá reglugerð um takmarkanir á skólastarfi og snúa þær að mestu leyti að nemendum sem eru í viðkvæmri stöðu og þurfa mjög mikla þjónustu við allar athafnir innan sem utan skóla. Með þeim undanþágum er staðinn vörður um þjónustu gagnvart okkar allra viðkvæmustu nemendahópum og þeim tryggð nauðsynleg þjónusta.

Næst ætla ég að ræða um framhaldsskólana og framhaldsfræðsluna. Framhaldsskólarnir hafa starfað með óhefðbundnu sniði frá því að samkomutakmarkanir voru fyrst boðaðar í mars. Aðstæður eru mismunandi, en í grófum dráttum hefur verklegt nám farið fram í staðkennslu en bóklegt nám almennt í fjarkennslu. Margir skólar hafa breytt námsmati sínu með aukinni áherslu á símat og minna vægi lokaprófa og sýnt mikla aðlögunarhæfni. Með því hefur tekist að tryggja menntun og halda nemendum við efnið.

Skólapúls framhaldsskólanna sýnir að brotthvarf er minna nú en oft áður, að verkefnaskil og prófaundirbúningur gangi vel og að nemendur sofi meira og hvílist betur en framhaldsskólanemar gera alla jafna. Engu að síður er félagslegur þroski og samskipti við aðra lykilatriði í góðri menntun og því er markmiðið núna einfalt: Að koma öllum í staðnám sem fyrst en að sjálfsögðu að taka fullt tillit til sóttvarna til að tryggja heilsu.

Varðandi háskóla: Háskólinn hefur verið að forgangsraða í þágu verknáms. Bóklega námið hefur verið í fjarnámi, eins og er víðast hvar annars staðar á Norðurlöndunum.

Að lokum, virðulegur forseti, vil ég nefna að við leggjum allan metnað í að setja framhaldsskólann í eins mikið staðnám og við mögulega getum um leið og aðstæður leyfa.