151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[11:14]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans. Í fyrsta lagi varðandi brotthvarfið vil ég nefna að við fylgjumst mjög vel með því og við byrjuðum að gera það strax í vor vegna þess að það er auðvitað það fyrsta sem maður hafði áhyggjur af. Þær tölur sem við höfum fengið frá vormisseri benda til þess að brotthvarf sé minna en það var. Við höfum hins vegar áhyggjur af því að faraldurinn hefur verið að dragast á langinn og við vitum ekki hvenær honum lýkur. Við erum því að leggja enn meiri áherslu á að passa upp á brotthvarfið og þær tölur sem við höfum núna benda ekki endilega til þess að það sé að aukast. Við vitum hins vegar að það sem nemendur hafa verið að gera er að segja sig jafnvel úr einum og einum áfanga til að minnka álagið. Við leggjum mesta áherslu á að jafnvel þó að magnið minnki aðeins sé aðalatriðið að halda sem flestum í skóla þannig að ekki verði brotthvarf. Við hugum mjög vel að því og ég get bara sagt það hér við þingheim að skólastjórnendur, rektorar og skólameistarar, um allt land fylgjast gríðarlega vel með þessu. Þeir eru með tölurnar frá vormisseri og frá haustmisseri. Við erum öll vakin og sofin yfir þessu.

Í annan stað varðandi sálfræðiþjónustu þá höfum við verið að auka hana. Við höfum verið að gera samninga við fyrirtæki sem bjóða upp á þjónustu á netinu og við erum að stuðla enn frekar að því að nemendur geti leitað til námsráðgjafa, til sálfræðinga og annarra sem geta stutt við bakið á þeim á þessum tímum. Þannig höfum við verið að auka stoðþjónustu. Ég vil líka nefna það að ég funda vikulega með Sambandi íslenskra framhaldsskólanema og samtökum háskólanema til að fá beint frá nemendum hvað þeir eru að hugsa.