151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[11:19]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir skýrsluna og líka fyrir það góða starf sem menntakerfið í landinu hefur unnið. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að mikið afrek hefur verið unnið. Það hefur tekist með samhentu átaki skólastjórnenda, kennara og annarra starfsmanna skólanna, skólaliða, stuðningsfulltrúa, fólks í mötuneytum og ræstingum. Allt þarf það að breyta sínum venjum og leggja meira á sig og finna lausnir. Og svo nemendurnir sjálfir að sjálfsögðu. Ég vil líka þakka fyrir og fagna því góða samtali sem hæstv. ráðherra hefur átt við þessa hópa og sérstaklega nemendur, þeir fá að vera með í þessu og þeirra rödd heyrist, ég hef heyrt að þeir meti það mikils.

En að nemendunum. Það er orðið ljóst, og þessi faraldur hefur sýnt það, að mikilvægi félagslífsins er eiginlega alveg jafnt á við námið, sérstaklega í framhaldsskólunum og byrjun háskólans. Það skiptir gríðarlega miklu máli. Það hafa verið fundnar lausnir við námið þótt fjarnám komi aldrei í staðinn fyrir staðnám. Það er bara erfiðara fyrir nemendur að spyrja spurninga, þau eru feimnari við það og allt þetta þannig að þau þurfa mun lengri tíma. Svo gengur örugglega einhvern tímann á seigluna þó að hún hafi verið ótrúlega mikil hjá krökkunum.

Hæstv. ráðherra kom inn á það að markmiðið væri einfalt; að reyna að koma sem fyrst á sem eðlilegastri starfsemi til þess að takast á við félagslífið. Mér fannst það markmið birtast í nýjustu sóttvarnareglunum en það hefur komið mér svolítið á óvart hvernig skólastjórnendur á framhaldsskólastiginu varðandi fyrsta árs nemendur hafa getað komist hjá því að bjóða nemendum í skólann á meðan skólastjórnendur í grunnskólunum hafa boðið öllum tíundu bekkingum í skólann. Ég skil ekki þennan mun þarna á milli, af hverju markmið stjórnvalda hefur ekki náðst þar.