151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[11:23]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og fagna því að það sé verið að vinna hratt og örugglega í þessu. Ég vil aftur leggja áherslu á að fyrsta árið í framhaldsskóla er mjög mikilvægt félagslega séð. Þú kemur inn á nýtt skólastig, misstir af félagslega þættinum í tíunda bekk, og ert að fóta þig og þarft stuðning. Þegar það gengur ekki alveg eins vel í náminu og maður ætlaði minnkar sjálfsálitið og annað þannig að þetta skiptir gríðarlega miklu máli. Þessir nemendur eru kannski ekki jafn mikill áhættuhópur varðandi Covid en eru mjög mikill áhættuhópur á félagslega og andlega sviðinu. Mér fannst sóttvarnalæknir og stjórnvöld taka mið af því með því að hafa rýmri reglur fyrir fyrsta ár í framhaldsskóla. Nemendur gátu mætt mun meira í upphafi, í vor, heldur en í dag en eftir að þessar reglur komu fram þá barst samt póstur til foreldra frá skólastjórnendum um að ekki væri hægt að framkvæma þetta og þau yrðu að vera áfram heima. Það kom mér á óvart.