151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[11:24]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Við höfum verið að vinna að þessu síðustu daga til þess að tryggja að það sé meira staðnám og það er verið að forgangsraða enn frekar í þágu framhaldsnema. Ég vil aðeins leiðrétta hv. þingmann um eitt. Á vormisseri var það svo að skólabyggingum var lokað á framhalds- og háskólastigi. Námið fór eiginlega alfarið yfir í fjarnám þannig að það voru enn þrengri reglur á vormisseri en nú. Ég ítreka það að allt sem við erum að gera núna snýst um að koma sem flestum á framhaldsskólastigi í staðnám. Ég tel að það sé mjög mikilvægt og ég heyri það þegar ég er að funda með nemendum, þau þrá að komast í skólann. Þau vilja hitta kennarann sinn og spyrja spurninga um þá áfanga eða þau fög þar sem þau eru að undirbúa sig fyrir lokapróf. Ég bara fagna því hvað það er mikill meðbyr með því að forgangsraða í þágu menntunar hér í þingsal.