151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[11:26]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Forseti Frakklands sagði nýverið að það væri erfitt að vera 20 ára á árinu 2020. Það er svo sannarlega hægt að taka undir þau orð. Elsta dóttir mín er í efsta bekk í menntaskóla og hún hefur í raun ekkert verið í skólanum síðan í mars. Samneytið, félagslífið, hópvinnan, böllin, skólakjallarinn, ferðalögin, klúbbastarfið, öllu þessu hefur hún og hennar kynslóð misst af. Mörkin milli skóla og heimilis eru orðin að engu, skilin milli heimavinnu og náms í skóla eru horfin.

Það er þrennt sem ég vil spyrja að. Í fyrsta lagi: Munu stjórnvöld bæta sérstaklega við sálrænan stuðning, námsráðgjöf og annan stuðning fyrir námsmenn í framhaldsskóla og háskóla? Eins og ráðherra veit er ég maður talna og fjárlaga og því spyr ég: Hvar eru peningarnir til að mæta þessum vanda?

Númer tvö: Þjóðhagslegur kostnaður af brottfalli eins framhaldsskólanema er um 18 millj. kr. Sé brottfallið hefðbundið er heildarkostnaðurinn vegna allra sem flosna upp úr námi um 23 milljarðar. Í dag getum við væntanlega áætlað að brottfallið verði talsvert meira en í hefðbundnu ári. Ég spyr því: Hvað eru stjórnvöld að gera núna til að sporna gegn brottfallinu?

Í þriðja lagi: Óhjákvæmilega munu krakkar útskrifast úr tíunda bekk í vor. Þau munu fara í framhaldsskóla. Hins vegar er einnig óhjákvæmilegt að sumir sem ætluðu að ljúka framhaldsskóla og skapa pláss á móti munu ekki gera það út af Covid og hugsanlega verri námsárangurs en ella. Ég spyr því: Munu skólarnir fá fjármagn til að mæta auknum fjölda nemenda í framhaldsskóla?

Herra forseti. Þetta er milljón króna spurning dagsins.