151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[11:28]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það var þrennt sem hv. þingmaður kom inn á. Í fyrsta lagi varðandi stoðþjónustuna, sálfræðiþjónustu, námsráðgjafa og annað slíkt: Já, við erum að bæta það. Ég tel að það sé mjög mikilvægt. Við þurfum líka að gera það í rafrænu formi og þannig að krakkarnir okkar og unga fólkið geti hitt þá sérfræðinga sem þau telja að geti stutt við sig. Við erum að gera þetta.

Varðandi brotthvarfið er ég sammála hv. þingmanni. Maður hefur mjög miklar áhyggjur af því. Þetta var það fyrsta sem ég hafði áhyggjur af í vor, hvernig vorið kæmi út. En það sem Skólapúlsinn, rektorar og skólameistarar segja okkur er að brotthvarf sé jafnvel minna. Jafnvel þó að við teljum að hlutirnir eigi kannski að vera öðruvísi en þeir eru hafa þessir krakkar, sem hv. þingmaður var að lýsa, lagað sig alveg gríðarlega vel að þessu þó að þetta sé ekki skemmtilegt. Ég skil þau mjög vel. En þau hafa verið mjög dugleg að læra og ég vil bara hrósa þeim fyrir það. Við þurfum að aðstoða þau núna við að komast inn í skólana til að klára þetta misseri eða þessa önn. Við vitum ekki alveg hvernig brotthvarfið þróast en við fylgjumst ofboðslega vel með því, eins og ég sagði.

Hv. þingmaður kom einnig inn á það hvort framhaldsskólastigið fengi aukna fjármuni vegna þess að nemendur yrðu fleiri. Já, ég bara fullyrði að svo verði. Það höfum við líka verið að gera. Þið sjáið það líka bara á framhaldsskólastiginu. Það eru komnir a.m.k. 1.500 nýir nemar inn á framhaldsskólastigið. Það verður fjármagnað vegna þess að við teljum að það sé svo mikilvægt akkúrat í þessari stöðu að fólkið okkar geti komið inn í menntakerfið, öðlast nýja færni og tekið svo aftur þátt í hagkerfinu okkar þegar birtir til.