151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[11:32]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir innlegg hennar hér. Ég held að við séum öll sammála um að nemendur og starfsfólk standi sig alveg rosalega vel í snúnum aðstæðum og við höfum aldrei áður með viðlíka hætti þurfti að glíma við slíkt í skólakerfinu okkar. Þess vegna er mjög mikilvægt að styðja vel við bakið á skólunum og koma til móts við þá með öllum tiltækum ráðum til að draga úr álagi. En við stöndum samt ótrúlega vel þrátt fyrir allt, því að ekki höfum við þurft að loka börnin okkar inni í margar vikur, eins og dæmi eru um í Evrópu.

Mig langaði að koma inn á eitt. Í ljósi þess að skerða hefur þurft t.d. verkgreinakennslu þá er það ærinn starfi fyrir annars úrræðagóða kennara að finna eitthvað sem brýtur daginn vel upp og sinnir öðru en þessum bóklegu fögum. Útikennsla er eitt dæmi um slíkt uppbrot. En það, eins og annað, krefst skipulags og annars konar utanumhalds en skiptir þó litla fólkið okkar sérstaklega miklu máli. Þegar tíminn er orðinn svona langur sem t.d. nemendur í framhaldsskóla hafa þurft að vera meira og minna heima, bak við tölvuna, er eðlilegt að það taki á sálartetrið, því að börn og ungt fólk eru almennt félagsverur og sækja stuðning hvert til annars. Það er ekkert öðruvísi með unga fólkið. Þrátt fyrir að þau hafi staðið sig alveg frábærlega vel þá glíma þau við zoom-þreytu, eins og ég hygg að mörg okkar fullorðnu geri líka.

Þess vegna er mikilvægt að styðja vel við unga fólkið okkar, bæði hvað varðar námið en ekki síður andlegu og félagslegu hliðina, eins og hér hefur verið rætt. Ég veit að ráðherra er með tilraunaverkefni frá því í haust sem fjallar um veflausnir í stuðningskerfi framhaldsskóla og ég vona sannarlega að það sé og verði góð reynsla af því, enda mikilvægt að það sé stuðningur í teymisvinnu milli þeirra aðila sem slíku starfi sinna í skólunum. Í þessu eins og öðru eru góð samvinna og skýr skilaboð milli aðila það sem helst getur komið í veg fyrir kvíða eða óþarfa óvissu og þar skiptir reglulegt samtal við ráðherra sannarlega miklu máli.

Mig langar til að leggja fram spurningu, sem snýr líka að (Forseti hringir.) starfsfólkinu, um eftirköst vegna álags hjá því, hvort við sjáum fram á að (Forseti hringir.) við missum ungt fólk í kulnun vegna mikils álags.