151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[11:42]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að ungt fólk taki þátt í því að móta stefnuna. Þess vegna vil ég upplýsa hv. þingmann um það að í allt haust hef ég fundað vikulega með framhaldsskólanemum og háskólanemum. Ég nota það inn í þessa vinnu og ég kem því á framfæri við sóttvarnalækni, landlækni og hreinlega við ríkisstjórnarborðið. Það er brýnt, þegar við erum að forgangsraða og taka ákvarðanir, að við tökum mið af því.

Mig langar að nefna nokkra þætti sem hafa komið fram á þessum fundum okkar. Í fyrsta lagi þá þrá nemendur að koma í skólann sinn. Þau vilja komast í skólann. Sumir hafa áhyggjur, og ég vil bara nefna það, af því að smit sé í skólum. Ef ég spyr: Ef þið ættuð að forgangsraða viljið þið koma í skólann og nota grímu? Þau segja: Já allan daginn; þau sem ég tala við. Þau segja: Við viljum frekar, bara til þess að komast, nota grímu. Þau vilja það. Í annan stað segja þau: Við þráum meiri samskipti við kennarana okkar. Við viljum hitta kennarann okkar. Þó að hann standi sig alveg frábærlega í fjarkennslunni, þá þráum við leiðbeiningar inni í kennslustofu. Þá spyr ég: Og jafnvel þó að það sé gríma? Já, jafnvel þó það sé gríma, við viljum alltaf frekar hafa grímuna og mæta í skólann. Þetta er það sem krakkarnir segja við mig. Það er auðvitað mjög mismunandi, ég ætla ekki að fara að alhæfa um allan hópinn.

Hv. þingmaður spurði: Hvers vegna settum við grímuskylduna á? Voru einhver gögn sem lágu að baki þeirri ákvörðun? Já, við fórum mjög gaumgæfilega yfir allt það sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur sagt um grímuskyldu og börn og þá er talað um að grímuskylda geti verið gagnleg fyrir 12 ára og eldri. Það sem við vorum að hugsa (Forseti hringir.) númer eitt, tvö og þrjú var að tryggja staðnám fyrir leik- og grunnskólabörn.