151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[11:47]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra prýðilega yfirferð yfir stöðu skólastarfs í landinu. Það er gott að heyra að hugur er í skólafólki og að skólastarf í leik- og grunnskólum gengur almennt vel, enda erum við sem þjóð afar heppin með magnað skólafólk á öllum stigum sem hefur sýnt ótrúlega aðlögunarhæfni og færni.

Það er ljóst að ákvarðanir um sóttvarnaaðgerðir eru aldrei teknar af léttúð en engu að síður er mikilvægt að við rýnum aðgerðirnar til gagns á hverjum tíma. Gleymum aldrei meginmarkmiðunum að verja okkar viðkvæmustu hópa og tryggja virkt heilbrigðiskerfi. Í sjálfu sér eru aðgerðirnar á öllum tímum einfaldar; forðast hópamyndun, forðast of mikla nánd, sérstaklega óskyldra og ótengdra aðila, og forðast smithættu á sameiginlegum snertiflötum. Þetta eru meginatriði aðgerðanna og hafa verið allan tímann.

Það er gríðarlega mikilvægt að halda rútínu barna gangandi og ég fagna áherslum ráðherra í þá veru að koma lífi barna sem fyrst í eðlilegt horf. Tómstundastarf og íþróttastarf hefur raskast og aðstæður barna eru misjafnar. Börn hafa mismunandi bakland til að takast á við þessar aðstæður. Áhrifin á líðan þeirra geta verið bæði jákvæð og neikvæð. Þau geta verið jákvæð ef aðstæður leyfa. Börn verja meiri tíma með fjölskyldum sínum við góðar aðstæður og jafnvel eru fleiri börn á heimilinu. Þetta er ekki alslæmt frekar en nokkuð annað.

Mig langar til að velta því upp hvort við gætum rætt meira um dugnað barna, seiglu og aðlögunarhæfni. Getum við gert eitthvað til að auka fræðslu til þeirra um tilgang sóttvarna og þeirra eigin ábyrgð í því? Við komumst býsna langt með þekkingu unga fólksins. Auðvitað er þetta ástand hundfúlt og oft erfitt en við munum komast í gegnum þetta. Getur verið hollt að láta sér leiðast? Getur verið að minni afþreying veki upp eitthvað nýtt og skapandi? Hvað getum við tekið jákvætt út úr þessu öllu saman?