151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[11:51]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Takk fyrir þetta, hæstv. ráðherra. Það er fagnaðarefni að heyra kraftinn í fólkinu og að það skuli eiga sér stað gott og gagnlegt samtal við nemendur og kennara. Ég vil líta á þetta þannig að við getum tekið margt gott út úr þessu. Eins og ég sagði áðan þá er þetta hundfúlt og erfitt en það er líka margt jákvætt. Það er gott að heyra formann Skólameistarafélagsins segja að á heildina litið standi nemendur sig vel og það sé ekki mikið brottfall. Í heildina gengur þetta bara ágætlega. Eigum við ekki að leyfa okkur að horfa svolítið á hlutina úr þeirri átt?

Mig langar til að varpa því til hæstv. ráðherra: Er ekki lag að halda þessari vinnu svo áfram með nemendum og kennurum og þeim sem eru í forystu fyrir skólastarfinu þegar við stígum út úr þessu ástandi? Sem mun ljúka, við munum komast í gegnum þetta. Hvað ætlum við að taka út úr því? Nú eru ungmennin okkar t.d. að fá miklu betri svefn, er það ekki jákvætt? Eigum við ekki að leggja áherslu á það áfram? Hvað getum við tekið gott út úr þessu?