151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[11:52]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það er heilmikið sem við getum lært af því. Eitt af því, svo ég nefni það, er þetta nána samstarf og samráð sem ég hef átt með öllu menntakerfinu á öllum skólastigum. Það hefur verið mér afskaplega dýrmætt. Það er mjög dýrmætt að heyra hvað er að gerast í leikskólunum. Eitt af því sem leikskólakennarar hafa sagt mér er að þau voru með í fyrri bylgjunni aðeins meiri hólfun, eins og við þekkjum, og þau komust að því, og ég held að það sé svo sannarlega rétt, að það vantar hreinlega meira rými í leikskólana okkar. Leikskólabörnin okkar búa við mjög lítið rými og þau komust m.a. að því að ýmis börn sem höfðu kannski ekki haft sig mikið í frammi gerðu það miklu frekar eftir þessa hólfun. Engum fannst þessi hólfun neitt sniðug og hún er það ekki. En við komumst að því að það þarf sjálfsagt meira rými á leikskólastigi. Það tökum við með okkur og við þurfum að læra af því.