151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[11:58]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er kannski einmitt þessi helgi sem hæstv. ráðherra nefnir sem ég er ekki síst með í huga, þ.e. vinnuhelgin sem átti sér stað eftir að búið var að tilkynna um sóttvarnir. Þarna biðu allir og höfðu eiginlega ekki nema örfáa klukkutíma þar til nemendur mættu í hús til að átta sig á hvað væri eiginlega í gangi. Þannig að spurningin er einmitt: Erum við ekki búin að vinna okkur inn tíma núna svo að þetta geti átt sér stað með lengri fyrirvara? Fyrirsjáanleiki og gegnsæi hljóta náttúrlega að vera lykilatriði upp á það einfaldlega að geta boðið starfsfólki, kennurum og skólastjórnendum upp á að sinna nemendum. Og ég fagna því að það sé komið í farveg. Svo vonum við bara að við munum ekki þurfa að nota það.

Mig langar aðeins til að spyrja um eitt af því að hér hefur töluvert verið rætt um fyrirkomulag smitvarna í skólum með tilliti til grímanna og annars slíks. (Forseti hringir.) Nú benda sífellt fleiri rannsóknir til þess að góð loftræsting sé mjög mikilvæg. (Forseti hringir.) Hún er töluvert mismunandi á milli skóla og byggingar eru mismunandi. Mig langar til að spyrja út í hvað hafi verið skoðað í því sambandi af hálfu heilbrigðisyfirvalda og menntamálayfirvalda.