151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[12:01]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir þessa umræðu. Nú eru námsráðgjafar á fullu við að aðstoða nemendur í framhaldsskólum og fara með þeim yfir stöðuna og stappa stálinu í þá. En það verður auðvitað sífellt erfiðara. Við eigum að hafa áhyggjur af unga fólkinu á þessum furðulegu Covid-19 tímum. Hvernig verður lokaprófum í framhaldsskólum háttað og sveigjanleika í því sambandi? Unglingarnir virðast hafa ákveðnar áhyggjur af sveigjanleikanum. Ástandið er mörgum mjög erfitt og þegar einkunnir birtast kemur í ljós hvernig þeim hefur reitt af í skólanum á þessum tímum. En síðan eru það hinir nemendurnir sem eiga við einhverja fötlun eða námserfiðleika eða bara undirliggjandi sjúkdóma að stríða. Hvernig er staðan þar og hvað er verið að gera í þeim hópi? Maður hefur heyrt mismunandi útgáfur eftir skólum hvernig tekið er á málum varðandi börn með undirliggjandi sjúkdóma, hvort þeim sé jafnvel hótað ef þau mæta ekki í skólann, það hefur verið svolítið á reiki.

En mestar áhyggjur hef ég af þeim stóra hópi fólks sem býr við fátækt, jafnvel sárafátækt, sem er með börn á framfæri, er jafnvel að reyna að koma þeim í gegnum menntaskóla. Hvernig er ástandið á þeim heimilum? Hvernig geta þau staðið í öllu því sem þarf að gera; vera á fjarfundum og vera með aðstöðu til þess, tölvukerfi, allt það sem þar er. Er eitthvað hugsað í því samhengi og er verið að gera eitthvað fyrir þessa einstaklinga? Það segir sig sjálft að það eru einhverjir hópar barna sem strögla og eiga í gífurlegum erfiðleikum með að vinna heima á fjarfundum. Það eru jafnvel börn einstæðra mæðra og kannski enginn heima og þau eiga jafnvel við fötlun að stríða.