151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[12:05]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra kærlega fyrir þessi svör. Ég vona heitt og innilega að henni gangi vel við að koma þessum málum í lag. Það sem ég hef líka áhyggjur af eru geðheilbrigðismálin. Ég hef áhyggjur af þeim vegna þess að ég hef á tilfinningunni að búið sé að búa til biðlista og svo sé verið að búa til aðra biðlista til að komast inn á aðalbiðlistann. Ég óttast að eitthvað svoleiðis geti verið í gangi. Ég ætla bara að vona að hún geti sefað þann ótta minn, að svo sé ekki. Nú hlýtur að fara að koma upp zoom-þreyta, fjarnámsþreyta. Og síðan eru það grímurnar. Ég veit það bara að ég finn það þegar ég er lengi með grímu þá fæ ég höfuðverk. Er verið að fylgjast með því hvaða áhrif þetta hefur í skólakerfinu, ekki bara á nemendur heldur líka kennara? Og hvernig á að bregðast við? Hvað er hægt að gera þegar einhver þolir t.d. ekki að vera með grímu en verður að vera með hana? Ég er að hugsa um heilsu viðkomandi.