151. löggjafarþing — 19. fundur,  13. nóv. 2020.

staða skólamála á tímum Covid-19, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra. - Ein umræða.

[12:10]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að við endurskoðum grunnframfærsluna. Ég hef þegar sett þá vinnu af stað, en ég vil líka benda á að við höfum hækkað hana að mig minnir tvisvar sinnum á þessu kjörtímabili. Við höfum líka aukið frítekjumarkið til að koma betur til móts við þá sem koma inn á háskólastigið eða framhaldsskólastigið. Hv. þingmaður nefndi hvort Menntasjóður ætti að draga úr kröfum er varða námsframvindu. Ég get upplýst hv. þingmann um að við erum líka að skoða það. Ég vil hæla Menntasjóði, bæði stjórninni og starfsfólki hans. Hann hefur brugðist mjög hratt og örugglega við þeirri stöðu sem uppi er, bæði gagnvart nemum sem eru erlendis og nemendum sem eru hér.

Ég vil einnig nefna það að Menntasjóðurinn er auðvitað ein mesta kerfisbreyting sem átt hefur sér stað hvað varðar kjör námsmanna í marga áratugi. Við horfum fram á það að þeir sem fara inn í Menntasjóð munu skulda mun minna en þeir sem voru í gamla kerfinu. Við erum mjög ánægð með að hafa náð að klára þessar kerfisbreytingar á sjóðnum síðasta sumar.

Eitt kemur fram í samtölum við háskólanema og það er að þeir eru að kljást við mikið álag. Við eigum sem stjórnvald að reyna að huga að því hvernig getum við mögulega dregið úr því, en engu að síður, og það finnst mér mjög mikilvægt, eigum við að hvetja nemendur áfram til að halda áfram í námi. Það versta sem getur komið út úr þessu er að nemendur treysti sér ekki til að halda áfram í námi, m.a. út af þeim þáttum sem hv. þingmaður nefndi. Þessi vinna er öll farin af stað, ég get upplýst hv. þingmann um það.