151. löggjafarþing — 20. fundur,  13. nóv. 2020.

skipulagslög.

275. mál
[13:01]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á skipulagslögum. Frumvarpið byggist á tillögum tveggja starfshópa, annars vegar undirhóps vegna vinnu átakshóps um úrbætur á innviðum sem skipaður var í kjölfar fárviðrisins sem gekk yfir landið í desember 2019, og hins vegar starfshóps sem skipaður var til að fjalla um tilteknar tillögur átakshóps um húsnæðismál í tengslum við gerð lífskjarasamninga. Tillögurnar fjórar lutu að skipulagsmálum og höfðu það m.a. að markmiði að lækka byggingarkostnað og stytta byggingartíma.

Tillögur þessara starfshópa voru auglýstar til kynningar auk þess sem áform um lagasetninguna og drög að frumvarpi um breytingu á skipulagslögum voru birt í samráðsgátt stjórnvalda til kynningar og athugasemda.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar verði að nýta með sem hagkvæmustum hætti þá orku sem þegar hefur verið virkjuð. Í þeim tilgangi þurfi að treysta betur flutnings- og dreifikerfi raforku í landinu. Ljóst er í því sambandi að framkvæmdir í meginflutningskerfi raforku eru umfangsmiklar og ná gjarnan yfir mörg sveitarfélög og útheimta alla jafna ítarlega umfjöllun í skipulagi og umhverfismati eins og lög gera ráð fyrir.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á skipulagslögum, nr. 123/2010, í tengslum við uppbyggingu flutningskerfis raforku, þegar um er að ræða framkvæmdir í meginflutningskerfi raforku sem ná yfir fleiri en eitt sveitarfélag. Slíkar framkvæmdir geta kallað á breytingar á aðalskipulagi og útgáfu framkvæmdaleyfis frá hverju sveitarfélagi fyrir sig. Ef svæðisskipulag er til staðar kann einnig að þurfa að gera breytingar á því með aðkomu allra þeirra sveitarfélaga sem aðild eiga að því. Þannig er aukin skilvirkni í því að heimila töku einnar sameiginlegrar skipulagsákvörðunar fyrir framkvæmd af þessu tagi.

Í frumvarpinu er því lagt til að lögfest verði heimild til að taka sameiginlega skipulagsákvörðun sem nái til einnar framkvæmdar vegna flutningskerfis raforku, þvert á sveitarfélagamörk. Slík sameiginleg skipulagsákvörðun verði í höndum sérstakrar raflínunefndar sem skipuð yrði fulltrúum allra þeirra sveitarfélaga sem viðkomandi skipulagsákvörðun á að ná til. Í nefndinni eigi einnig sæti fulltrúi Skipulagsstofnunar til að tryggja fagþekkingu, bæði gagnvart skipulagsgerð og mati á umhverfisáhrifum. Gert er ráð fyrir að framkvæmdaraðili hafi frumkvæði að því að óska eftir að ráðherra skipi slíka nefnd. Beiðni framkvæmdaraðila skal koma fram á undirbúningsstigi framkvæmdar og áður en formlegt ferli samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum er hafið.

Meginhlutverk raflínunefndar verður að undirbúa og samþykkja skipulagsákvörðun vegna viðkomandi framkvæmdar, gefa út sameiginlegt framkvæmdaleyfi og hafa eftirlit með framkvæmdinni. Skipulagsfulltrúar viðkomandi sveitarfélaga annast eftirlit með framkvæmdinni í umboði og á grundvelli samstarfssamnings við raflínunefnd. Hvað varðar kostnað við gerð skipulags og útgáfu framkvæmdaleyfis er gert ráð fyrir að framkvæmdaraðili standi undir honum með þjónustugjaldi. Skipulagsstofnun mun í umboði nefndarinnar annast verkefnastjórn og samskipti við framkvæmdaraðila. Framkvæmd mats á umhverfisáhrifum og hlutverk Skipulagsstofnunar verður formlega óbreytt en matið unnið samhliða og samþætt undirbúningi skipulagsákvörðunar. Í auglýsingu tillögu að raflínuskipulagi verður aðalvalkostur auglýstur en jafnframt gerð grein fyrir öðrum valkostum og raflínunefnd getur breytt skipulagstillögunni í samræmi við niðurstöðu umhverfismats við endanlega afgreiðslu tillögunnar, enda hafi verið gerð grein fyrir viðkomandi valkosti í matsferlinu. Á grundvelli raflínuskipulags og niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum er gert ráð fyrir að raflínunefnd gefi út sameiginlegt framkvæmdaleyfi. Ef nefndin kemst ekki að sameiginlegri niðurstöðu er lagt til að málinu skuli vísað til umhverfis- og auðlindaráðherra sem taki ákvörðun um val á valkosti og hvaða skilyrðum framkvæmdin skuli háð í skilmálum skipulagsins.

Hluti af tillögum starfshóps um húsnæðismál, þ.e. hins starfshópsins sem ég nefndi hér í upphafi, varðar breytingar á skipulagslögum og miðar að því að stytta byggingartíma vegna íbúðarhúsnæðis og þar með lækka byggingarkostnað. Í frumvarpinu eru útfærðar tillögur starfshópsins um styttri umsagnarfrest skipulagstillagna og um aukna áherslu á rafræna stjórnsýslu og stafræna þjónustu.

Í frumvarpinu er því lagt til að heimilt verði að víkja frá meginreglu skipulagslaga um sex vikna athugasemdafrest þegar um er að ræða afmarkaða þætti deiliskipulags, þ.e. tillögu til breytingar á deiliskipulagi sem varðar uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Heimilt verður að veita fjögurra vikna athugasemdafrest að því tilskildu að sveitarfélag hafi auglýst með áberandi hætti tveimur vikum áður áform um breytingar á deiliskipulaginu. Í skipulagslögum er meginreglan að frestir til athugasemda við tillögur um breytingar á skipulagsáætlunum séu að lágmarki sex vikur. Skipulagslögin innihalda þó undantekningar frá þeirri reglu. Lögin gera t.d. ráð fyrir að lágmarki fjögurra vikna athugasemdafresti þegar um er að ræða heimild til að beita grenndarkynningu í stað deiliskipulagsgerðar. Lykilatriðið er að almenningur sé meðvitaður um umræddar tillögur og hafi í reynd tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Á það legg ég mikla áherslu. Hæfileg lengd umsagnarfrests kann þannig að vera breytileg eftir eðli, umfangi og fyrirkomulagi samráðs. Með því að gera áskilnað um auglýsingu um fyrirhugaða tillögu eigi síðar en tveimur vikum fyrir birtingu auglýsingar er gætt að þátttökuréttindum almennings og tryggt að almenningur sé meðvitaður um breytinguna.

Einnig er lagt til að mæla fyrir um landfræðilega gagna- og samráðsgátt sem rekin yrði af Skipulagsstofnun. Gáttinni er ætlað að vera samráðs- og upplýsingavettvangur um skipulagsgerð. Stafrænt, opið aðgengi að gögnum við gerð skipulags og undirbúning framkvæmda er skilvirk leið til að styrkja samráð og kynningu fyrir almenningi. Með stafrænni gátt eru einnig tækifæri til að minnka flækjustig og tvítekningar, stytta boðleiðir og auka yfirsýn og gagnsæi ferla.

Þess má geta að lögð hefur verið áhersla á aukna stafræna opinbera þjónustu á undanförnum misserum en á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins er rekin verkefnastofa um stafrænt Ísland auk upplýsinga- og þjónustuveitunnar Ísland.is.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.