151. löggjafarþing — 20. fundur,  13. nóv. 2020.

skipulagslög.

275. mál
[13:09]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa ræðu og óska honum til hamingju með frumvarpið. Ég viðurkenni að ég er ekki búin að lesa það allt í gegn, þetta er nú svolítill lagabálkur, en ég held að það sé alveg ofboðslega mikilvægt að við förum í það að einfalda þetta kerfi. Það hefur sýnt sig á síðustu árum, og ég efast ekki um það, að þetta var allt saman gert með góðum hug, allur sá lagabálkur sem við erum búin að byggja upp í kringum skipulagsmál. Það er mikilvægt að þau mannvirki sem byggð eru upp og innviðir séu öruggir, hafi sem minnst áhrif á náttúru okkar og þjóni sínum tilgangi. Við viljum tryggja aðgengi almennings og hagsmunaaðila að ferlinu og annað, en það er mín reynsla, eftir að hafa verið formaður skipulagsnefndar í meðalstóru sveitarfélagi í yfir tíu ár, að allt það kerfi sem við erum búin að byggja upp í kringum svona framkvæmdir sé farið að snúast um kerfið sjálft en ekki fólkið sem því var ætlað að þjóna.

Ég vil bara óska hæstv. ráðherra innilega til hamingju með málið, þetta hljómar eins og skynsamleg leið til að ná utan um efni sem við höfum verið að glíma við, eins og með raflagnirnar þegar farið er yfir mörg sveitarfélög og það þarf að fara aftur og aftur í ferlið. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt og ég óska hv. umhverfis- og samgöngunefnd góðs gengis með að vinna með þetta mál og vona að þeim takist að vinna málið vel og vandlega, en líka hratt og örugglega.