151. löggjafarþing — 20. fundur,  13. nóv. 2020.

skipulagslög.

275. mál
[13:11]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Herra forseti. Ég ætlaði að stökkva í stutt andsvar við ráðherrann en var aðeins of seinn til þannig að ég held bara mjög stutta ræðu í staðinn. Rétt til að nefna það, sem kom reyndar fram í samráðsferli þessa máls þegar drög voru kynnt, þá getur verið um hættulegt fordæmi að ræða. Jú, vissulega hefur gengið treglega að ná saman um skipulag á flóknum flutningsleiðum raforku, en lausnin á því er ekki endilega að rífa skipulagsvaldið úr því samhengi sem það er í hjá sveitarstjórnum. Lausnin gæti kannski verið í því að skipulag raforkuflutninga miði frekar að þörfum almennra notenda en ekki einhverjum stórkarlalegum hugmyndum um uppbyggingu í þágu stóriðju, sem hefur allt of oft verið raunin. Það kann að vera að á ákveðnum leiðum sé þetta aðferð sem virkar, en það þarf þá að nálgast þetta vald með mikilli varúð og það þarf líka að vera algerlega á hreinu að þetta sé ekki fordæmisgefandi fyrir annars konar framkvæmdir.

Við vitum, og þekkjum þess dæmi úr þessum sal, að uppi eru raddir um að rífa annars konar skipulag úr því samhengi sem það er í, t.d. að taka skipulagsvaldið í kringum Alþingishúsið og færa það frá Reykjavíkurborg yfir til landsyfirvalda. Það var tillaga sem lögð var fram á þingi fyrir nokkrum árum. Svo eru alltaf að dúkka upp hugmyndir um að marka einhver landamæri utan um Reykjavíkurflugvöll og segja að Reykjavíkurborg ráði ekki skipulagi þar. Þetta þarf að tryggja. Best væri náttúrlega að ekki þyrfti að koma til þess að búa til einhvern sérstakan sáttafarveg utan um þessar framkvæmdir vegna þess að ef þessar framkvæmdir eru settar fram með réttum hætti, ef þær þjóna réttum markmiðum, ætti að geta skapast um þær sátt.

Mig langar því að benda á það sem mig minnir að komið hafi fram í umsögn Landverndar við drögin á samráðsgáttinni, að taka þyrfti fram í þessum lögum að uppbyggingin væri í þágu almennra notenda þannig að fólkið sem skipulagsvaldið tilheyrir, fólkið sem býr á svæðinu, upplifi ekki að verið sé að valta yfir réttindi þess í þágu stóriðjuvera í fjarlægum hreppum.

Þriðja atriðið sem passa þarf upp á er að staðinn verði vörður um aðkomu almennings að mótun andmælaréttar og allt sem tengist, af því að ekki viljum við stíga skref í átt frá auknu almannasamráði í jafn mikilvægum málum og skipulagsmál eru.