151. löggjafarþing — 20. fundur,  13. nóv. 2020.

bygging nýs þjóðarsjúkrahúss á Keldum.

177. mál
[13:24]
Horfa

Flm. (Anna Kolbrún Árnadóttir) (M):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um byggingu nýs þjóðarsjúkrahúss á Keldum. Ásamt mér eru flutningsmenn þingmenn Miðflokksins: Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson og Þorsteinn Sæmundsson.

Þessi tillaga á sér nokkurn aðdraganda en þrisvar sinnum hef ég lagt fram á Alþingi tillögur þess efnis að kanna besta stað fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús, gera svokallaða staðarvalskönnun. Nú er svo komið að ástæða er til að Alþingi álykti að fela heilbrigðisráðherra að hefja undirbúning að framtíðaruppbyggingu nýs þjóðarsjúkrahúss á Keldum í Reykjavík sem hafi m.a. það hlutverk að vera aðalsjúkrahús landsins. Það er ætlunin að ráðherra leggi fram þarfa- og kostnaðargreiningu, m.a. með tilliti til gæða-, samgöngu-, umferðar- og öryggismála, og hafi samráð við fagaðila við vinnslu hennar. Að þessu sögðu er mikilvægt að hafa í huga að þjóðarsjúkrahúsið, Landspítali við Hringbraut, mun ekki geta sinnt hlutverki sínu svo vel sé vegna staðsetningar, sérstaklega vegna þess að Hringbraut er ekki lengur miðja höfuðborgarsvæðisins, þó að sú staðsetning hafi þótt hentug fyrir einhverjum árum.

Tillagan sem ég legg hér fram nú kveður á um að samhliða undirbúningi á framtíðarstaðsetningu nýs þjóðarsjúkrahúss verði kannaður fýsileiki þess að nýta byggingar við Hringbraut undir umdæmissjúkrahús eða héraðssjúkrahús. Niðurstöður greiningarinnar verði tilbúnar ekki síðar en í maí á næsta ári, 2021.

Til að útskýra betur þessa tillögu má nefna, eins og ég sagði í byrjun, að tillaga um staðarvalsgreiningu fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús hefur verið flutt nokkrum sinnum hér á Alþingi en er nú breytt í þá átt að huga eigi að framtíðaruppbyggingu þjóðarsjúkrahússins á Keldum í Reykjavík. Til að fara aðeins yfir söguna þá skrifuðu íslenskir og erlendir sérfræðingar álitsgerðir á árunum 2001–2008. Í flestöllum var komist að þeirri niðurstöðu að best væri að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús frá grunni á nýjum stað. Sérfræðingarnir sem sömdu álitin töldu hins vegar að ef ekki væri hægt að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni á nýjum stað væri best að byggja við sjúkrahúsið í Fossvogi eða gamla Landspítalann við Hringbraut, sem sagt næstbesti eða þriðji besti kosturinn til uppbyggingar var valinn. Niðurstaðan, að byggja við Landspítalann við Hringbraut, var byggð á aðalskipulagi Reykjavíkur árið 2001–2024 en allar forsendur skipulagsins virðast brostnar, ekkert þeirra umferðar- og skipulagsúrræða sem þar var reiknað með er í gildi núna. Núverandi staðarval sjúkrahússins virðist því byggjast á úreltu skipulagi og ekki verður fram hjá því litið að aðgengi að Hringbraut getur skapað óöryggi hjá þeim sem þurfa á bráðaþjónustu að halda.

Í skýrslu, sem unnin var af Háskólanum á Bifröst og Rannsóknastofnun atvinnulífsins fyrir Samtök atvinnulífsins í nóvember 2015, kom m.a. fram að Hringbraut hentaði ekki sem framtíðarstaðsetning þjóðarsjúkrahúss og að fjárhagslegur ávinningur annarrar staðsetningar væri töluverður og því væri brýnt að taka stöðuna á ný.

Í úttekt samtaka um betri spítala á betri stað, sem gerð var í júní 2015, sagði að kostnaður við byggingu og rekstur nýs þjóðarsjúkrahúss væri mismunandi eftir staðsetningum. Samtökin báru saman þrjá staði, viðbyggingar við gamlar byggingar á Hringbraut, viðbyggingu við spítalann í Fossvogi og byggingu nýs spítala frá grunni á öðrum stað, sem væri nýr staður nær búsetumiðju höfuðborgarsvæðisins og við meginumferðaræðar. KPMG fór yfir útreikningana, skoðaði forsendur og staðfesti þá miðað við gefnar forsendur. Samanburðurinn sýndi að hagkvæmara væri að byggja í Fossvogi en við Hringbraut og enn hagkvæmara væri að reisa nýtt þjóðarsjúkrahús frá grunni á nýjum stað.

Meginmarkmið þessarar tillögu er því að undirbúningur verði hafinn að uppbyggingu nýs sjúkrahúss á Keldnalandi í Reykjavík sem hafi m.a. það hlutverk að vera aðalsjúkrahús landsins. Atburðir síðustu misserin hafa vissulega kallað á endurskoðun þess efnis að hafa bæði annars stigs og þriðja stigs þjónustu á sama stað með tilheyrandi truflun á gangverkinu. Það er því afar mikilvægt að fyrir liggi þarfa- og kostnaðargreining, m.a. út frá gæða-, samgöngu- og umferðaröryggismálum, eins og ég gat um áðan. Gert er ráð fyrir að við þá vinnu muni ráðherra hafa samráð við fagaðila, svo sem skipulagsfræðinga, sjúkraflutningamenn, þyrluflugmenn, verkfræðinga, viðskiptafræðinga, umferðarfræðinga, heilbrigðisstarfsfólk að sjálfsögðu og fleira mætti telja.

Niðurstöðurnar þyrfti að gera aðgengilegar fyrir allan almenning og stjórnmálamenn þannig að glögglega megi átta sig á því hvernig fyrirhuguð staðsetning þjóðarsjúkrahússins á Keldum kemur út á helstu mælikvörðum sem skipta máli.

Ég vænti þess að Alþingi taki vel í þessa tillögu og að hún fái góða og vandaða umfjöllun í hv. velferðarnefnd.