151. löggjafarþing — 20. fundur,  13. nóv. 2020.

kjötrækt.

97. mál
[13:32]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að kanna stöðu kjötræktar og skipuleggja aðgerðaáætlun um innleiðingu tækni fyrir íslenskan landbúnað með það að markmiði að flýta fyrir því að kjötrækt verði samkeppnishæf við afurðir af hefðbundinni veiði eða ræktun dýra til manneldis.

Samantekt um stöðu kjötræktar liggi fyrir eigi síðar en 1. nóvember 2021 og ráðherra leggi fram tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda hvað varðar kjötrækt eigi síðar en 1. mars 2022.

Þetta mál er gríðarlega mikilvægt framtíðarmál. Tillaga þessi hefur áður verið flutt á 146., 147., 148., 149. og 150. löggjafarþingi, en því miður ekki farið lengra en í nefnd.

Kjötrækt er aðferð til þess að búa til kjöt án þess að slátra þurfi dýri. Hugmyndin hefur verið til síðan 1912 þegar vísindamanni að nafni Alexis Carrel tókst að halda frumum úr hjarta kjúklings á lífi í 34 ár, 1912–1946, utan líkama lifandi lífveru. Hægt hefði verið að halda þeim lifandi lengur en það gleymdist að mata frumurnar. Það var nemandi sem vaknaði ekki einn morguninn eða eitthvað svoleiðis, og þar glataðist sú ræktun. Árið 1931 spáði Winston Churchill því að innan 50 ára yrðum við laus við þann fáránleika að þurfa að rækta heilan kjúkling til þess að borða bara læri eða bringu. Árið 1995 samþykkti matvælastofnun Bandaríkjanna tilraunir til að rækta kjöt með það að markmiði að matur yrði ekki vandamál í löngum geimferðum.

Þessi aðferðafræði, þessi tækni, hefur gríðarlega víðtæk áhrif á líf og samfélag manna og umhverfi og náttúruna. Helsti kostur þess að rækta kjöt umfram dýrarækt til manneldis, og til dýraeldis ef nefna má það líka, eru umhverfisáhrifin. Í Bandaríkjunum fara 25% af öllu kjöti í gæludýr. Það eitt og sér gæti verið gríðarlega góður grundvöllur til að byrja kjötrækt, þ.e. hægt væri að nota ræktað kjöt fyrir gæludýr áður en það yrði dæmt öruggt til manneldis. Helsti kosturinn er umhverfisáhrifin og, þótt það eigi kannski síður við á Íslandi, ekki þarf heldur að nota sýklalyf í kjötrækt. Viðamiklar rannsóknir hafa verið gerðar á umhverfisáhrifum kjötræktar. Niðurstöður sýna að kjötrækt sendir frá sér 78–96% minna af gróðurhúsalofttegundum og ekki eru þau vandamál lítil í landbúnaði. Til kjötræktar þarf 99% minna landrými og 82–96% minna af vatni, það fer eftir því um hvaða tegund er að ræða. Einungis er notuð minni orka í fuglarækt enda er fuglarækt í lokuðum, dimmum húsum, varla kveikt á ljósaperu í mörgum tilfellum, ekki mjög gott. Kjötrækt þarf 7–45% minni orku en t.d. svínarækt og hefðbundin dýrarækt. Ég er með tengil í greinargerðinni á rannsóknina þar sem vísað er í þessar tölur.

Óháð því hvað Ísland gerir til þess að undirbúa tilkomu þessarar tækni til matvælaframleiðslu þarf hérlendis að glíma við þær breytingar sem kjötrækt hefur á neysluvenjur. Þó að eftirspurn eftir kjöti af dýrum hverfi örugglega ekki minnkar hún líklega mjög mikið, þó ekki væri nema vegna umhverfisáhrifa. Það hefur mögulega áhrif á landbúnað og sjávarútveg á Íslandi sem og annars staðar í heiminum. Því er mjög brýnt að Ísland sé undirbúið fyrir þessar tækniframfarir, bæði með aðgerðaáætlun og stefnu. — Mig langar að orða þetta aðeins nánar: Ég held að þetta séu gríðarlega mikil tækifæri fyrir þann landbúnað sem er stundaður hér á Íslandi eins og er. Eins og ég segi þá verður alltaf eftirspurn eftir dýraafurðum og í raun dýrum og dýrakjöti. Alveg eins og við þurfum ekki að veiða okkur villt dýr til matar lengur, því að við erum náttúrlega mest með fisk, þá er það samt gert. Það er samt verið að veiða rjúpur og hreindýr o.s.frv., þó að það sé í raun algjör óþarfi. Það er áfram eftirspurn eftir því. Þó að hún verði minni held ég einmitt að tækifæri íslensks landbúnaðar séu rosalega góð á þeim markaði sem gæðavara. Ef eitthvað er getur þetta orðið jákvæð þróun fyrir íslenskan landbúnað, og það er rosalega spennandi.

Almennt séð er einnig gríðarlega mikilvægt að íhuga þetta vel því að þetta gerir það að verkum að við þurfum ekki að fara með risastór skip út og veiða í troll o.s.frv. Þetta gæti gert það að verkum að smærri veiðar, handfæraveiðar og þess háttar, verði miklu arðbærari, hagkvæmari og það verði betri meðferð á þeirri auðlind sem við erum með hér í kringum hafið. Það getur einfaldlega verið að sú stefna sé tekin að við þurfum einfaldlega að láta náttúruna vera, fyrir utan sjálfbærar veiðar sem smærri veiðarfæri leyfa.

Samkvæmt Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna þarf tæplega helming allrar uppskeru heimsins til þess að fæða dýr til manneldis; um 1,4 milljarða kúa, 1 milljarð svína, 20 milljarða hænsna og 1,9 milljarða kinda og geita. Það þarf þó nokkur kíló af fóðri til þess að búa til kíló af kjöti. Ef einungis er reiknað í kaloríum myndu 44% af núverandi landbúnaðarframleiðslu duga til þess að fæða mannkynið en ekki þau 83% sem eru vegna földaframleiðslu dýra til manneldis. Með hamfarahlýnun, og þar af leiðandi breytingum á því hvar og hvort hægt er að rækta nægilega mikið fóður fyrir dýr til manneldis, og vegna þess að mannkyninu fjölgar um 2,5 milljarða á næstu þremur til fjórum áratugum, verður gríðarleg áskorun að viðhalda núverandi fyrirkomulagi. Eitthvað verður undan að láta. Vissulega kjósa margir kjötlausan lífsstíl þar sem alls konar kjötlausar afurðir hafa komið fram en rembast þó við að líkjast kjöti sem mest. Staðreyndin er sú að kjöt verður áfram neysluvara og þó að margir skipti yfir í kjötlausan lífsstíl verður hlutdeild kjöts áfram viðamikil í mataræði jarðarbúa. Vandamálið er verksmiðjuframleiðsla á dýrum til manneldis. Það er hvorki sjálfbær aðferð til kjötframleiðslu fyrir þann mannfjölda sem jörðin mun hýsa á næstu áratugum né við þær loftslagsbreytingar sem við sjáum fram á að verði. Það er því nauðsynlegt að breyta til og möguleg lausn er til staðar, og það er kjötrækt. Það eina sem þarf að gera er að greiða þeirri lausn leið. Þetta er nýsköpunarverkefni sem hefur gríðarlega möguleika, bæði vegna loftslagsmála og þeirra áskorana sem við stöndum frammi fyrir vegna fólksfjölgunar.

En þetta er líka heilbrigðismál. Uppruni heimsfaraldra á undanförnum árum og áratugum hefur einmitt verið í kringum villt dýr, blöndun þeirra við önnur dýr eða vegna þessara dýramarkaða þar sem villt dýr koma inn á, eða einmitt í fjöldaframleiðsluverksmiðjum þar sem ofnotkun á sýklalyfjum býr til fjölónæmar bakteríur. Þetta er heilbrigðisvandamál því að í kjötrækt er hægt að losna við fjöldaframleiðsluna, það er ekki lengur sama þörf á þessum mörkuðum með villt dýr af því að aðgengi að mat og fæði er miklu auðveldara. Það gerir að verkum að ekki er nauðsynlegt að hafa slíka markaði þó að ákveðin hefð sé þar á bak við sem erfitt verður að glíma við, en þarf að gera. Þessi tækni er því gríðarlega mikilvæg sem heilbrigðismál.

Enn fremur er þessi tækni líka rosalega mikilvæg sem friðarmál. Ef eitthvað er, það er ekki algilt að sjálfsögðu, þá er hægt að segja að sá sem er saddur sé ekki eins herskár og sá sem er svangur. Við ættum öll að kannast við það að fara út í búð þegar við erum svöng. Við kaupum allt öðruvísi mat en þegar við erum ekki svöng úti í búð, og það eru bara smámunir miðað við þá sem alla jafna þurfa kannski að líða skort. En þetta er rosalega merkileg þróun. Þetta er í raun fyrsta gjörbyltingin í fæðuöflun fyrir mannkynið frá því að við fórum að setja girðingu í kringum dýr og rækta grænmeti og korn og ýmislegt svoleiðis. Þarna losnum við við dýrið. Hingað til höfum við bara verið að gera betur í því að vera með grindverk í kringum dýr o.s.frv., vissulega margs konar tækniþróun innan þeirrar greinar. En grundvallarhugmyndin er alltaf girðing í kringum dýr og akur, þetta er ekki mikið flóknara en það. En hér er um gjörbyltingu að ræða.

Eins og tæknin er í dag þá er besta leiðin til þess að rækta kjöt að nota mikið af sermi sem er vökvi úr fóstrum kúa, notaður í frumuræktun, til rannsókna o.s.frv. Markmið allra framleiðenda sem eru að vinna að þessari tækni er einmitt að það séu engar dýraafurðir í framleiðsluferlinu. Það mun enginn framleiðandi markaðssetja ræktað kjöt sem inniheldur sermi. Þar er langstærsta tæknigirðingin sem þarf að komast yfir, bæði að ná að flytja þetta úr þessari smáu framleiðslu sem er núna, og er tiltölulega dýr, t.d. er verið að framleiða kjúklinganagga núna og hver kostar kannski 50 dollara — það þarf að ná ræktuninni úr þessu litla umhverfi yfir í stóra umhverfið og það skref er ekkert alveg sjálfsagt. Hitt er að ná næringunni sem frumurnar þurfa úr einhverju öðru en dýraafurð. Enn eru því áskoranir til staðar.

Spár sýna fram á að 35% af öllu kjöti í heiminum árið 2040 verður ræktað kjöt. Sumir vilja kalla það hreint kjöt. Það er ákveðið rifrildi um það hvort kalla megi þetta kjöt eða ekki. Af öllum þessum ástæðum, hversu stórt umhverfismál það væri að komast þangað, hversu mikið heilbrigðismál það væri að komast þangað, hversu mikið friðarmál það væri að komast í þann heim þar sem þessi tækni er til og almennt notuð, er þeim mun mikilvægara að hjálpa til við að komast þangað fyrr en síðar. Og um það snýst þessi tillaga, að skoða hver staðan er, hver áætluð þróun er, og að leggja og móta stefnu um það hvernig þetta á að gerast fyrr.