151. löggjafarþing — 20. fundur,  13. nóv. 2020.

mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum.

81. mál
[13:51]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að móta heildstæða stefnu um afreksfólk í íþróttum í samvinnu við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og sveitarfélögin. Stefnan verði tímasett samhliða því að tryggður verði fjárhagslegur stuðningur við afreksfólk.

Ráðherra leggi fram á Alþingi tímasetta stefnu um afreksfólk í íþróttum fyrir 1. júní 2021.“

Að þessari tillögu standa auk mín hv. þingmenn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Jón Steindór Valdimarsson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Björn Leví Gunnarsson og Ásmundur Friðriksson. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem tillaga af þessum toga kemur fram, en vonandi í síðasta skipti, a.m.k. í bili.

Þáverandi hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir lagði fram fyrstu tillöguna á þingi í október 2012 um að mótuð yrði heildstæð stefna um afreksfólk í íþróttum. Þá voru örfá ár liðin frá því að karlalið Íslands í handbolta hafði unnið til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum, frá því að íþróttamenn úr hópi fatlaðra höfðu unnið til verðlauna á Ólympíuleikunum nokkur ár í röð. Þá hafði afreksfólk í fimleikum orðið Evrópumeistarar, bæði í unglinga- og kvennaflokki. Svo var kvennalið okkar í fótbolta komið í hóp þeirra bestu í Evrópu, bara svo eitthvað sé nefnt sem áunnist hafði þá. Og hver er staðan í dag þegar þessi tillaga er nú flutt í þriðja sinn í þessum þingsal? Karlalandsliðið okkar hefur bæst í hópinn. Það hefur spilað á tveimur stórmótum, Evrópumeistaramótinu 2016 og heimsmeistaramótinu 2018, afrek sem hreif alla þjóðina og mér liggur við að segja alla heimsbyggðina. Það er grátlegt að vera að flytja þessa tillögu nú eftir að við vorum svo nálægt því að ná markmiðinu í þriðja skipti í gærkvöldi. En að vissu leyti ýtir það enn undir mikilvægi þessa þingmáls. Handboltalandsliðið okkar heldur áfram að fara á hvert stórmótið á fætur öðru eins og ekkert sé sjálfsagðara, og margt fleira mætti telja til; körfuboltann, sundið, frjálsar íþróttir, skíðin og allt hitt sem ég næ ekki að telja upp hér.

Afreksíþróttir hafa skipað veglegan sess meðal landsmanna og afreksíþróttafólkið okkar hefur verið frábær landkynning á erlendri grundu. Á sama tíma er okkur öllum ljóst og raunverulega sífellt ljósara hversu mikilvægt það er að börn og ungmenni hafi góðar fyrirmyndir á þessu sviði. Mikilvægið gengur í báðar áttir vegna þess að það er akkúrat úr öflugu barna- og unglingastarfi, grasrótinni, sem þetta frábæra afreksfólk okkar rís upp. Þetta er mikilvægt fyrir börn og unglinga, og það er mikilvægara, meira áríðandi og meira í sviðsljósinu en nokkru sinni fyrr þegar við höfum niðurstöður kannana á eftir könnunum sem sýna þann fjölda íslenskra barna sem ekki fær nægilega hreyfingu á hverjum degi, og til viðbótar það sem við vitum nú, að þetta hefur áhrif, ekki eingöngu á líkamlega burði einstaklinga heldur einnig þroska heilans.

Margt hefur verið gert af hálfu hins opinbera sem vert er að nefna, af hálfu sérsambanda innan íþróttahreyfingarinnar sem hefur gert þeim kleift að halda úti landsliðum og taka þátt í alþjóðastarfi sem fulltrúar Íslands. Ferðasjóður íþróttafélaga hefur verið efldur og stutt hefur verið við Afrekssjóð Íþróttasambands Íslands. En betur má ef duga skal.

Síðastliðinn áratug hefur íslenskt afreksíþróttafólk reglulega vakið athygli á slæmri fjárhags- og réttindastöðu sinni. Í desember 2019, fyrir tæpu ári síðan, skrifaði hópur afreksíþróttafólks undir beiðni til mennta- og menningarmálaráðuneytis og annarra sem málið varðar um að vinna í launa- og réttindamálum íslensks afreksíþróttafólks. Í yfirlýsingu hópsins kemur m.a. fram að árangurstengdir styrkir frá Afrekssjóði ÍSÍ séu oftar en ekki einu tekjur afreksíþróttafólks til að fjármagna keppnis- og æfingaferðir. Styrkirnir eru ekki skilgreindir sem laun, sem leiðir til þess að afreksíþróttafólk vinnur sér ekki inn réttindi á meðan á ferlinum stendur. Eftir að honum lýkur standi margt afreksíþróttafólk uppi með skuldir á bakinu og réttindalaust, án lífeyrisréttinda, stéttarfélagsaðildar, atvinnuleysisbótaréttar, aðgengis að sjúkra- og starfsmenntasjóðum eða réttinda til fæðingarorlofs, svo eitthvað sé nefnt.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur mótað afreksstefnu sína þar sem settar hafa verið fram tímabundnar, markvissar áætlanir um frammistöðu á stórmótum. Til að tryggja slagkraft markmiðanna til langframa ber, ásamt því að horfa á keppnisárangur, að styrkja eigin getu og hæfileika hreyfingarinnar til að vinna að langtímamarkmiðum í afreksíþróttum. Mörg íþróttafélög, í samvinnu við sveitarfélög, hafa gert slíkt hið sama.

Í ljósi þess að sá árangur er mikilvægur sem náðst hefur, hvort heldur er í hópíþróttum eða einstaklingsíþróttum, og hversu mikilvægt það er, ekki fyrir bara þá einstaklinga sem málið snertir sem náð hafa þessum árangri, félög þeirra eða sambönd sem þau starfa innan, heldur fyrir þjóðina alla, er tímabært að stjórnvöld móti stefnu um afreksfólk í íþróttum í samvinnu við sveitarfélög um land allt og í samvinnu við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands þannig að stuðningurinn við íþróttahreyfinguna verði með markvissum hætti.

Í þessari þingsályktunartillögu er því lagt til að ráðherra verði falið að móta slíka heildstæða stefnu og að stefnan feli bæði í sér faglegan og fjárhagslegan styrk — að okkar mati er ekki hægt að skilja þetta í sundur — og að stefnan verði unnin í samvinnu við Íþrótta- og Ólympíusambandið og sveitarfélögin til að tryggja að sem flestir taki þátt í vinnunni og þar með að hún nái til þeirra sem ná þarf til. Með þessu móti eru mestar líkur á að stefnan verði grundvöllur að öflugum stuðningi við afreksfólkið okkar, sem eykur síðan líkur á því að mestur árangur náist á allan mögulegan máta, að afreksfólkið okkar fái fyrirmyndaraðstæður til að ná þessum árangri og að við hlúum að því sama fólki, bæði meðan á ferlinu stendur og í kjölfarið. Okkur þykir nauðsynlegt að stefnan verði tímasett, t.d. til næstu fimm til tíu ára, og að fjárhagslegur stuðningur verði tryggður samhliða, og síðan verði stefnan endurskoðuð árlega. Við teljum að best fari á því að ráðherra leggi fram tímasetta stefnu fyrir júní 2021 og að ráðherra haldi allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis, sem fær þetta mál til þinglegrar meðferðar, upplýstri um framgang málsins.

Frú forseti. Í gær flutti hv. þm. Helga Vala Helgadóttir tillögu fyrir hönd Samfylkingarinnar hér í þingsal um að menntamálaráðherra verði í samráði við fjármálaráðherra falið að leggja fram frumvarp til laga um launasjóð fyrir afreksfólk. Ég tel mjög mikilvægt og æskilegt í alla staði að þessar tvær tillögur verði unnar saman eins og kostur er og að þær fái báðar skjóta og jákvæða afgreiðslu hér í þingsal.

Við eigum svo ótrúlegt afreksfólk og það er óendanlega dýrmætt, en það er alls ekki sjálfgefið. Það er mikilvægt að við munum öll að svona árangur kemur ekki af sjálfu sér. Það gerir það ekki hjá neinum. Að baki liggur markviss, ótrúleg vinna og skýr stefna og markmiðasetning. Örþjóð eins og við erum þurfum einna helst á því að halda að það sé samfella í slíkri stefnu til að við getum sem best tryggt veru okkar meðal afreksþjóða á íþróttasviðinu. En til þess þarf sterka sýn, það þarf gott utanumhald og það þarf öflugt starf um land allt. Þess vegna er þessi tillaga lögð fram. Ég vona og trúi því að þingheimur tryggi góða og jákvæða afgreiðslu beggja þessara tillagna sem ég hef nefnt hér vegna þess að það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir okkur öll.