151. löggjafarþing — 20. fundur,  13. nóv. 2020.

takmarkanir á fjárfestingum í vinnslu jarðefnaeldsneytis.

242. mál
[14:40]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (U):

Frú forseti. Eins og fram kom hjá forseta er þetta tillaga um takmarkanir á fjárfestingum í vinnslu jarðefnaeldsneytis og er endurflutt frá 150. löggjafarþingi. Tillagan er endurflutt með nokkrum breytingum, þannig að nú fjallar hún um víðara svið. Tillagan snýst um að fjármála- og efnahagsráðherra skipi starfshóp, í samráði við umhverfis- og auðlindaráðherra og atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, sem geri tillögur að leiðum fyrir íslenskt fjármálakerfi til að verða í fararbroddi í grænni fjárfestingu og þróun sem miðar að jarðefnaeldsneytislausu samfélagi, þ.e. að íslenskt fjármálakerfi verði hluti af lausn á loftslagsvandanum. Þetta er svo einfalt. Tillögurnar taki hið minnsta til fjárfestingarstefnu hins opinbera og lífeyrissjóðanna, til þeirra fjármuna sem hægt er að segja að séu sameign almennings, en nái eftir atvikum til fjárfestinga allra stærri fjárfestingarsjóða og annarra fjármálafyrirtækja, til þess að við getum sagt að í þessu landi séum við öll í því saman að berjast gegn loftslagsbreytingum. Jafnframt er lagt til að þessi starfshópur vinni tillögur að því hvernig útfæra megi bann við fjárfestingum hins opinbera og lífeyrissjóða í fyrirtækjum sem tengjast vinnslu jarðefnaeldsneytis og setji tímasetta áætlun um að losa um beint og óbeint eignarhald áðurnefndra aðila í slíkum fyrirtækjum, ef það er fyrir hendi. Þetta er ekki bara í þágu loftslagsins heldur í þágu þeirra sem eiga að uppskera úr þessum fjárfestingum, sjóðfélaga og almennings, vegna þess að fjármunir sem í dag eru bundnir í framleiðslu jarðefnaeldsneytis eiga eftir að gufa upp á næstu árum. Það er í raun bara skaðaminnkun að draga það fé út úr slíkum fjárfestingum sem fyrst. Þetta er tillaga sem gæti reynst ein skjótvirkasta leiðin til að ná árangri í loftslagsmálum innan þess gróðadrifna hagkerfis sem við búum við. Við skulum samt alltaf hafa hugfast að það gróðadrifna hagkerfi er ekki bara hluti af vandanum heldur grundvöllur vandans sem birtist í loftslagsbreytingum.

Aðdragandinn að þessari tillögu er nokkuð langur og er gerð grein fyrir honum í greinargerð. Þetta byrjaði með því að sá sem hér stendur spurði þáverandi fjármálaráðherra hvort hann teldi ástæðu til að breyta reglum um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða, sem tiltekur í dag m.a. að lífeyrissjóðir skuli setja sér siðferðisleg viðmið, hvort hann teldi ástæðu til að víkka þá kröfu út þannig að það kæmi skýrt fram að fjárfestingarstefna lífeyrissjóða skyldi þjóna loftslagsmarkmiðum og markmiðum um sjálfbærni. Ráðherra svaraði því til að siðferðislegu viðmiðin ættu sennilega að ná utan um þetta, en þar að auki væri það sennilega gagnsætt þeim sem skoða vildi í hverju lífeyrissjóðirnir fjárfestu. Ég fylgdi þessu því eftir með fyrirspurn til sama ráðherra og spurði hversu stór hluti eignasafns lífeyrissjóðanna væri bundinn í starfsemi sem fælist á einn eða annan hátt í vinnslu og sölu jarðefnaeldsneytis. Þá kom í ljós að ráðherra gat engu svarað. Þrátt fyrir að hann hefði í munnlegu svari hér í þingsal talið að þessar upplýsingar lægju allar fyrir kom í ljós að þær gerðu það bara aldeilis ekki.

Raunar hafa fleiri reynt að kalla eftir þessum gögnum, Lýðræðisfélagið Alda, Landvernd o.fl. hafa verið að spyrja lífeyrissjóði og stærri fjárfestingarfyrirtæki út í það hvort þau eigi með einum eða öðrum hætti hlut í fyrirtækjum sem framleiði jarðefnaeldsneyti. Þau svör sem þar hafa borist benda til þess að hjá sumum þeim stærstu geti sérstaklega erlendar fjárfestingar, sem eru oft í gegnum verðbréfasjóði, með óbeinum hætti verið í vinnslu jarðefnaeldsneytis. Þarna er ekki um neina litla hagsmuni að ræða. Eignir íslensku lífeyrissjóðanna námu 5.500 milljörðum í lok ágúst sl. Þar af voru erlendar eignir 1.851 milljarður kr. Það eru ofboðslega miklir hagsmunir í því hvernig þessum fjármunum er varið.

Mig langar hins vegar að nefna það varðandi þessi grænu umskipti á fjármálakerfinu, sem eru nauðsynleg, að þau eru farin í gang. Þau eru farin í gang í löndunum í kringum okkur, hjá Evrópusambandinu og í viðskiptalífinu sjálfu. Mér þótti áhugavert að sækja viðskiptaþing í byrjun þessa árs, undir yfirskriftinni Á grænu ljósi, sem fjallaði um fjárfestingar og framfarir án fótspors, eins og það hét. Þar var heill hellingur af fólki úr viðskiptalífinu sem veit alveg upp á hár hvað klukkan slær vegna þess að það vinnur með neytendum sem kalla eftir metnaðarfullri sýn í loftslagsmálum og vegna þess að það er að ráða til sín starfsfólk sem vill vinna hjá fyrirtækjum sem þjóna þeirri framtíð sem við viljum sjá. Að sumu leyti er sá hópur fólks kominn lengra en hópurinn sem situr í ríkisstjórn Íslands í dag, sem virðist ekki átta sig á því að heimurinn er að taka fram úr íslensku ríkisstjórninni þegar kemur að því að færa fjárfestingar úr gráu yfir í grænt. Þá er nærtækt að líta austur um haf til Brussel þar sem Evrópusambandið samþykkti nú í vor flokkunarreglugerð um umhverfislega, sjálfbæra fjárfestingu sem hluta af grænum samfélagssáttmála, eða „Green New Deal“, eins og það heitir á ensku. Þetta er kerfi sem mun ná utan um öll stærri fyrirtæki í Evrópu og tekur gildi á árunum 2022–2023 og mun vafalaust hafa mikil áhrif hér á Íslandi, hvort sem er beint í gegnum EES-samninginn eða óbeint í gegnum þá staðreynd að hér um bil öll fyrirtæki á Íslandi eiga í einhverjum samskiptum við viðskiptalífið í Evrópu.

Þessi flokkunarreglugerð Evrópusambandsins ræðst á vanda sem er mjög mikilvægt að ráðast á, sem er að svara spurningunni: Hvað er græn fjárfesting? Það er spurning sem taka mætti upp í þeim starfshópi sem hér er lagt til að settur verði á laggirnar. Eins og staðan er í dag er allt of auðvelt fyrir fyrirtæki, eða hvern sem er, að skreyta sig með grænum fjöðrum án þess að eiga það skilið. Hægt er að fá einhvern óstaðlaðan, grænan stimpil á hvað sem verið er að gera og tromma því síðan upp að viðkomandi sé í framvarðasveit þegar kemur að baráttunni í loftslagsmálum. Við þekkjum þetta líka í sambandi við umræðuna um hvort loftslagsmarkmið stjórnvalda séu metnaðarfull eða ekki. Það er erfitt að meta það þegar ekki er óháður aðili með staðlaða aðferð við að meta það og við þurfum að trúa fagurgala þeirra sem hafa hagsmuni af því að koma sem best út.

Hér kemur ríkisvaldið að svo miklum notum vegna þess að sameiginlegur rammi, sameiginlegur skilningur á því hvað felst í grænum fjárfestingum, er eitthvað sem ríkið getur búið til, auðvitað í samstarfi við þá sem á munu halda, en ríkið getur tryggt að allir aðilar á markaði búi við sömu skilyrði, að þeir geti gengið að því vísu að fjárfesting sem vottuð er græn hér á Íslandi sé það í raun og veru. Ég nefndi hér flokkunarreglugerð Evrópusambandsins, sem ég reikna með að höfð verði til hliðsjónar, hvort sem það verður í gegnum þá tillögu sem ég legg hér fram, eða einhverjum árum síðar þegar fólk vaknar uppi í Stjórnarráði og gerir það sama.

Evrópusambandið leggur til þrjá meginflokka: Í fyrsta lagi starfsemi sem kemur í veg fyrir loftslagsbreytingar af mannavöldum; í öðru lagi starfsemi sem mildar neikvæðu áhrifin; í þriðja lagi starfsemi sem ver vatn og sjó; í fjórða lagi hringrásarhagkerfið, í fimmta lagi mengunarvarnir og í sjötta lagi aðgerðir sem endurheimta og vernda líffræðilega fjölbreytni. Þetta eru mjög stór svið og á köflum örugglega mjög tæknileg úrlausnarefni. Þess þá heldur er mikilvægt að sameiginlega sýnin sé tryggð með því að stjórnvöld setji sig í forystu fyrir vinnunni.

Að losa sig við fjárfestingar í framleiðslu og vinnslu jarðefnaeldsneytis er bara skaðaminnkunarverkefni fyrir fjárfesta. Þetta snýst líka um að minnka eftirspurnina eftir umhverfislega skaðlegum fjárfestingum. Það er siðferðislegt verkefni sem fjárfestar þurfa að standa undir. Hin hliðin sem þessi tillaga fjallar um er kannski frekar á framboðshliðinni. Það eru dúndrandi tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf að koma snemma fram á sviðið með alvöru grænar fjárfestingar. Við vitum að úti um allan heim, sérstaklega hér í kringum okkur, í Evrópu, er bókstaflega verið að setja stefnuna um að fjárfestingar skuli uppfylla umhverfismarkmið. Um allan heim er ákall eftir grænum fjárfestingum. Hér á Íslandi er hægt að sjá fyrir því framboði, en Ísland gæti svo hæglega, svo ofboðslega auðveldlega, dregist aftur úr ef við trúum því að við getum bara sagst vera græn en ekki fylgt því eftir í raun og veru, ef við trúum því að við þurfum ekki að uppfylla alþjóðlega staðla eða að geta sýnt fram á að við gerum það.

Frú forseti. Þess vegna er svo mikilvægt að vinna þá vinnu sem lögð er til í þessari tillögu til þess að íslenskt fjármálakerfi sinni þeim markmiðum sem við viljum að það sinni í þágu loftslagsmála og geti líka sótt öll þau tækifæri sem eru fólgin í því að sinna því góða verki.