151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

minnst látins fyrrverandi alþingismanns, Kjartans Jóhannssonar.

[13:30]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Kjartan Jóhannsson, fyrrverandi alþingismaður og forseti neðri deildar Alþingis og fyrrverandi ráðherra, lést á heimili sínu föstudaginn 13. nóvember sl. á 81. aldursári.

Kjartan Jóhannsson var fæddur í Reykjavík 19. desember 1939. Foreldrar hans voru Jóhann Þorsteinsson, kennari og síðar forstjóri hjúkrunarheimilisins Sólvangs í Hafnarfirði, og kona hans Astrid Dahl hjúkrunarfræðingur.

Kjartan lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1959 og hélt að því loknu til Stokkhólms og lauk prófi í byggingarverkfræði við Tækniháskólann þar 1963. Eftir ársnám í rekstrarhagfræði við Stokkhólmsháskóla 1964 fór hann til Chicago og lauk þar doktorsprófi í rekstrarverkfræði 1969.

Heim kominn vann Kjartan ýmis verkfræði- og ráðgjafarstörf en hóf brátt samhliða því kennslu við Háskóla Íslands og var skipaður dósent í stærðfræðilegri hagfræði og tölfræði í viðskiptadeild frá 1. janúar 1974.

Kjartan Jóhannsson lét að sér kveða þegar á námsárum og skipaði sér m.a. í forustusveit íslenskra stúdenta erlendis. Árið 1970 hóf hann afskipti af bæjarmálum í Hafnarfirði, varð bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins 1974 og var sama ár kosinn varaformaður Alþýðuflokksins. Hann varð alþingismaður Reyknesinga eftir kosningasigur flokksins 1978 og í kjölfarið var hann skipaður sjávarútvegsráðherra og að auki viðskiptaráðherra ári síðar eftir að stjórnarskipti höfðu orðið og sat sem ráðherra fram í febrúar 1980. Kjartan þótti sýna í ráðherrastörfum sínum mikla elju og naut jafnframt menntunar sinnar og skarpleika við úrlausn erfiðra verkefna. Fór og svo að hann var kjörinn formaður Alþýðuflokksins 1980 og var oddviti hans í fjögur ár.

Kjartan sat á tólf löggjafarþingum alls, á árunum 1978–1989. Við stjórnarskipti haustið 1988 varð Kjartan forseti neðri deildar Alþingis í tæpt ár eða þar til hann var skipaður sendiherra 1. ágúst 1989 með aðsetri í Genf. Árið 1994 varð hann framkvæmdastjóri EFTA og gegndi því embætti til ársins 2000. Hann varð á ný sendiherra 2002 og þá með aðsetri í Brussel, allt fram til starfsloka 2005.

Margvísleg nefnda- og félagsstörf hlóðust á Kjartan Jóhannsson eftir að hann hóf stjórnmálaafskipti enda atorkusamur, yfirvegaður og vandvirkur. Sama máli gegndi um störf hans í utanríkisþjónustunni og var jafnan hlustað á rödd Íslands þegar hann flutti mál sitt erlendis.

Á Alþingi lét Kjartan margt til sín taka sem ráðherra og síðar flokksformaður, einkum efnahags- og auðlindamál og húsnæðis- og tryggingamál. Hann tók virkan þátt í alþjóðastarfi þingsins, hjá Evrópuráðinu og í EFTA-nefndinni, og var m.a. formaður Evrópustefnunefndar þingsins. Kjartan var lipur og laginn við fundarstjórn en það ár sem hann sat á forsetastóli hafði ný ríkisstjórn ekki meiri hluta í neðri deild, svo að nokkuð reyndi á. Hann beitti sér enn fremur sem forseti fyrir umbótum í rekstri þingsins.

Kjartan Jóhannsson var hógvær maður í allri framgöngu, rökfastur í málflutningi og sanngjarn en fastur fyrir og lítt gefinn fyrir léttúð eða lausatök þegar leysa þurfti úr vandasömum málum. Í daglegum samskiptum var Kjartan eftir sem áður léttur og broshýr og kom iðulega með hnyttnar athugasemdir um menn og málefni sem lífguðu upp á daginn. Um Kjartan Jóhannsson munaði hvar sem hann var, í atvinnulífi, stjórnmálum og embættisstörfum heima sem erlendis.

Ég bið þingheim að minnast Kjartans Jóhannssonar, fyrrverandi alþingismanns, með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]