151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

vaxtahækkun bankanna.

[13:40]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Nú ríða ríkisbankarnir á vaðið með að hækka vexti. Ég er algerlega orðlaus. Ég er algjörlega orðlaus yfir því hvað er verið að bera á borð fyrir okkur núna. Íslandsbanki ríður á vaðið. Landsbankinn auglýsir vaxtahækkun. Hér hefur forsætisráðherra, og ríkisstjórnin undir hennar forystu, talað um hvað hún hafi komið mikið til móts við þá sem minna mega sín í samfélaginu, komið til móts við fjölskyldurnar. Gerður var lífskjarasamningur og það átti að lækka vexti. Stýrivextirnir eru jú 1%, en fær fólkið í landinu, almenningur í landinu, að njóta þess núna þegar bankarnir sem alþýðan á, sem við eigum, íslenska þjóðin, eru að hækka vexti? Ég verð að segja að mér er virkilega misboðið.

Við lækkuðum bankaskatt og hæstv. fjármálaráðherra segir að það muni koma neytendum til góða, fólkinu í landinu, viðskiptavinir bankanna hljóti að hagnast á því þegar við lækkum bankaskattinn og það muni skila sér í aukinni þjónustu og lægra kostnaðarstigi. En er raunin sú? Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Ertu sátt við þá þróun í ljósi þess að nú eru bankarnir líka á þriðja ársfjórðungi að skila milljörðum í hagnað? Við erum að ganga í gegnum eina öflugustu kreppu sem við höfum nokkurn tíma þurft að horfast í augu við, ef bara nokkurn tíma. Við höfum sennilega aldrei horfst í augu við annað eins.

Er hæstv. forsætisráðherra sáttur við það núna að undir hennar stjórn skuli þessi þróun vera í bankakerfinu okkar, sem bitnar helst á fjölskyldunum og heimilunum í landinu sem síst skyldi? Og ef ekki, hvernig sér hæstv. forsætisráðherra fyrir sér að reyna að snúa þeirri öfugþróun við sem við erum að horfast í augu við núna?