151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

vinnumarkaðsmál.

[13:49]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir þessa fyrirspurn. Það er alveg rétt að hér liggur fyrir þinginu frumvarp sem ég mun mæla fyrir í dag, ef dagskrá þingsins vindur þannig fram, sem snýr einmitt að því að allir þeir einstaklingar sem urðu atvinnulausir eftir að Covid skall á í íslensku samfélagi, urðu atvinnulausir vegna Covid, fái sex mánaða tekjutengt tímabil. Ríkisstjórnin hefur stigið mjög myndarlega inn og það er auðvitað þannig að alveg sama hversu mikið er gert þá er alltaf hægt að koma auga á að hægt sé að hliðra aðeins meira til. Ég vil í því ljósi segja að ég held að ríkisstjórnin hafi komið mjög myndarlega að málum þegar kemur að stöðu þeirra sem hafa verið atvinnulausir og hafa misst vinnuna. Við sjáum það m.a. í því formi að á yfirstandandi ári munu útgreiddar atvinnuleysisbætur með hlutabótum líklega slaga í 80 milljarða kr. Ég held að aldrei í Íslandssögunni hafi ríkið stigið jafn myndarlega inn þegar kemur að greiðslum í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð.

Ég tek hins vegar undir með hv. þingmanni að það er mikilvægt að vera á vaktinni þegar kemur að þessu. Þess vegna er ríkisstjórnin núna jafnframt að skoða frekari aðgerðir til að koma til móts við þá einstaklinga sem eru atvinnulausir og vonandi getum við kynnt það á næstunni.