151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

vinnumarkaðsmál.

[13:51]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Bætur atvinnulausra eru áunnin réttindi launafólks. Það eru ekki einhver sérstök gæði af ríkisstjórninni að greiða þau réttindi út. Það eina sem hæstv. ríkisstjórn hefur gert og lagt til sérstaklega fyrir atvinnulausa í atvinnuleysiskreppunni — hún velur að gera það fyrir suma en ekki alla. Hún skiptir hópnum í tvennt. Helmingurinn fær notið aðgerðanna en hinn helmingurinn ekki. Það er algerlega óásættanlegt og það er óréttlátt. Og ekki segja að það sé of dýrt að láta það sama yfir alla ganga því að það kostar ekki einu sinni helminginn af þeirri upphæð sem ríkisstjórnin hefur þegar greitt út til fyrirtækja til að hjálpa þeim við að segja fólki upp.

Við hverju má búast frá ríkisstjórninni og hæstv. ráðherra málaflokksins? Verða grunnatvinnuleysisbætur hækkaðar? Þær verða 51.000 kr. undir lágmarkstekjutryggingum um áramót. Má búast við tímabundnum eingreiðslum eða ætla stjórnvöld að sjá til þess að enn fleiri leiti til hjálparstofnana eftir mat?