151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

aukin atvinnuréttindi útlendinga.

[14:16]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Það er alveg rétt að það er talsverð umræða í samfélaginu um atvinnuréttindi útlendinga sem koma hingað utan EES og þá oft og tíðum í tengslum við mál sem lúta að útlendingalögum og þeirra sem sækja hér um vernd. Staðan í dag er sú að þetta er með þeim hætti að fyrst er veitt dvalarleyfi, sem gert er á grundvelli útlendingalaga, og síðan koma málin til þess ráðherra sem sér um vinnumarkaðsmálin eða til Vinnumálastofnunar sem fjallar um atvinnuréttindi. Það er líka þannig að um leið og það getur verið skynsamlegt að stíga ákveðin skref, þegar kemur að umræðu um atvinnuréttindi útlendinga, þá þurfum við líka að horfa til þess að það er gríðarlega mikið af innflytjendum á íslenskum vinnumarkaði og við sjáum það vel núna í tengslum við atvinnuleysistölur o.fl. Það má því ekki horfa á þessi mál með þeim hætti að það sé einhver töfralausn fólgin í því að gera breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, að þá muni allir hætta að sækja um í hinu kerfinu, sem er ætlað fyrir hælisleitendur og þá sem sækja um vernd. Mér hefur oft fundist umræðan snúast um það að við séum að reyna að leysa eitt með öðru.

Ég hef lýst því yfir að það sé skynsamlegt að stíga ákveðin skref, í umræðunni um það með hvaða hætti við rýmkum atvinnuréttindi útlendinga. Það samtal þarf að eiga sér stað, ekki bara á vettvangi stjórnmálanna. Það þarf líka að gerast í samtali við vinnumarkaðinn sjálfan, við bæði launþegasamtök og atvinnurekendur, hvernig við sjáum það fyrir okkur. Þannig er það í mörgum löndum sem við berum okkur saman við. Það leysir ekki þann vanda sem er til staðar í dvalarleyfiskerfinu vegna þess að áfram mun þurfa að fara yfir það hvernig við getum gert það markvissara og ég hef boðið dómsmálaráðherra fram aðstoð í því.

Það liggur ekki fyrir nákvæm tímasetning eða dagsetning (Forseti hringir.) á því hvenær þessari vinnu lýkur en við erum tilbúin í hana. En við erum ekki með einhverja fyrir fram ákveðna niðurstöðu um (Forseti hringir.) hvernig eigi að opna og með hvaða hætti. Það þarf samtal að leiða í ljós.