151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

búvörulög.

224. mál
[14:37]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Einhver málsháttur segir að mjór sé mikils vísir og víst er að það mál sem við erum nú að fjalla um sýnir á margan hátt hvað núverandi ríkisstjórn er laus við kjark og laus við að sjá fram á veginn, laus við framsýni. Þó að þetta mál sé góðra gjalda vert og ég komi til með að styðja það, er það við núverandi kringumstæður metnaðarlaust, tekur ekki næstum því nóg á því sem þyrfti að gera við þær kringumstæður sem við búum. Veita á 200 milljónir til garðyrkjubænda og nota bene, herra forseti, síðast þegar ég vissi voru garðyrkjubændur á Íslandi 200 talsins. Nú veit ég ekki hvort þetta verður greitt út alveg slétt eða eftir einhverjum stærðarmörkum. En við núverandi aðstæður hefði ríkisstjórnin náttúrlega átt að taka djarft skref. Hún hefði átt að ákveða það að garðyrkjan fengi rafmagn á sama verði og önnur stóriðja.

Hvað á ég við með þessu, herra forseti? Jú, á Suðurlandi einu saman starfa líklega rúmlega 600 manns við garðyrkju, sem er meira en í meðalálveri. Og akkúrat núna þegar við erum í miðjum faraldri hefði aukning á garðyrkjuframleiðslu verið það auðveldasta og fljótlegasta sem við gætum gert til þess að bæta atvinnustig og bæta framleiðsluverðmæti og jafnvel stíga skref í þá átt að við gætum flutt út grænmeti. Það er á alla vegu gott að auka grænmetisframleiðslu á Íslandi, hvernig sem við komum að því. Það eykur atvinnu, framleiðsluverðmæti og verðmæti þess sem við erum að gera. Við neytendur fáum heilnæmari vöru vegna þess að hér er ekki verið að nota eitur, hér er ekki verið að nota nema besta vatn sem er til og, bara svo ég taki eitt dæmi, forðumst við að flytja tómata yfir hálfan hnöttinn til Íslands með tilheyrandi útblæstri og mengun.

En við eigum að horfa miklu hærra en þetta. Ef við horfum á garðyrkju og grænmetisframleiðslu á Íslandi þá er hún tvenns konar: Hún er svokölluð útiræktun og hún er ræktun undir gleri. Útiræktunin keppir með óblítt veður hér miðað við það sem gerist í samkeppninni erlendis, og útiræktun, og reyndar garðyrkjan í heild, er líka að keppa við það að sunnar í Evrópu er notað ódýrasta vinnuaflið sem hugsast getur til þess að taka upp uppskeruna og vinna við hana. Borist hafa fregnir af því að t.d. sunnarlega á Ítalíu hafi verið fluttar inn rúmenskar konur til að annast þetta og með þær hefur verið farið ótrúlega illa á allan hátt, þær hafa sætt ofbeldi og áreiti auk þess að vera á svívirðilega lágum launum. Sem ábyrgir neytendur ættum við Íslendingar ekki að kaupa grænmeti nema við vitum hvernig það er ræktað, hvort það er mikil notkun á eiturefnum og að það sé alveg tryggt að þeir sem vinna við framleiðsluna njóti allra réttinda sem okkur Íslendingum finnast sjálfsögð. Þetta eigum við að gera. Eins og ég segi, það er enn eitt lóðið á þá vogarskál að við byrjum að framleiða enn þá meira af grænmeti en við gerum í dag.

Ég held að það sé hægt að nálgast þetta mál með tvennum hætti. Það er sjálfsagt mál að beita beingreiðslum og framleiðslustyrkjum til þess að aðstoða þá bændur sem stunda útiræktun, enda eru þeir eins og allir aðrir íslenskir bændur að keppa við styrkta framleiðslu, niðurgreidda framleiðslu. Ég verð að segja það einu sinni enn, herra forseti, vegna þess að það liggur ekki á lausu, það er ekki einfalt mál að komast að því hversu miklum fjármunum Evrópusambandið ver á ári hverju til niðurgreiðslu eða til styrkja í landbúnaði, en talan sem ég heyrði nýlega var 69 milljarðar evra. Ég er líka búinn að heyra töluna 83 milljarðar dollara. Síðan geta menn reiknað. Þetta eru á annan tug þúsunda milljarða íslenskra króna sem þessi framleiðsla er styrkt um í Evrópusambandinu. Evrópusambandið er það sniðugt í styrkjum sínum að styrkir til landbúnaðar í Evrópu eru faldir í eins konar búblu eða þoku.

Hér á Íslandi er þetta aftur á móti allt uppi á borðinu. Við vitum hversu mikið fer t.d. til sauðfjárræktar. Við vitum hvað fer mikið til mjólkurframleiðslu og glöggir neytendur deila náttúrlega í með framleiðslunni og fárast yfir því að verið sé að greiða niður mjólkurlítrann um 100 eða 200 kr., eða hvað það nú er, og niðurgreiða lambakjöt. Þetta geta menn bara reiknað út. En við getum alls ekki reiknað út þessar tölur út miðað við það hvernig Evrópusambandið gefur út sínar upplýsingar. Þær liggja ekki á lausu. Þær tölur sem ég nefndi áðan eru ekki frá Evrópusambandinu komnar, herra forseti, enda ekki á vísan að róa þar, heldur frá viðurkenndum erlendum fjölmiðlum, t.d. New York Times. Þetta er það sem íslenskir bændur, og grænmetisbændur þar með, keppa við á hverjum einasta degi.

Nú ætla ég að ítreka það sem ég sagði áðan: Alþingi á að ákveða að grænmetisbændur fái raforku á sama verði og stóriðjan. Það er óþolandi, herra forseti, og ég er búinn að spyrja að því í gegnum árin, bæði forystumenn bænda, garðyrkjubænda og Bændasamtakanna, og ég fæ alltaf sama svarið þegar ég spyr: Eru hollenskir bændur enn þá að fá hverja kílóvattstund til þess að rækta undir gleri á lægra verði en Íslendingar? Og svarið er já, herra forseti. Hollenskir bændur fá raforkukílóvattstundina ódýrari en íslenskir bændur. Þetta er orka sem framleidd er með kjarnorku, kolum, olíu, gasi, hverju sem við viljum. Hún er ekki umhverfisvæn nema þá að litlu leyti, hugsanlega einhver vindorka.

Og þá kem ég að heilnæmi framleiðslunnar hér; minna eitur, nánast ekkert sums staðar, grunnvatnið er hreinna, ekki er notað margnotað vatn í framleiðslu okkar. Þetta er það sem kallast á enskri tungu — eða hálfíslensku, ég veit að þingmálið er íslenska og ég get svo sem snarað því yfir; þetta er svona söluáherslupunktur, líka til þess að flytja út. Mér er kunnugt um að ferðamenn hafa komið t.d. í Friðheima, sem er stórkostlegt fyrirtæki á Suðurlandi sem stundað hefur ferðamennsku, en einmitt núna þegar ferðamannalindin er að þorna aðeins upp, hvað gera þeir þá? Þeir tvöfalda það húsnæði sem þeir ætla að nota til tómataframleiðslu undir gleri. Þetta er fólk sem tekur því mótlæti sem við Íslendingar erum í núna, algerlega eins og hetjur. Við eigum fullt af fólki sem er alveg tilbúið að gera eitthvað svipað, en við þurfum að skapa því skilyrði. Þess vegna þurfum við að tryggja að þessi stóriðja blómstri með því að við sköpum henni skilyrði til að vaxa, með því að selja ódýrari orku.

Það er líka annað em ég hef oft talað um og ég ætla líka að tala um hér. Það er affallsvatnið sem rennur frá virkjunum, t.d. niður allt Ölfus frá Hellisheiðarvirkjun, og frá Nesjavallavirkjun er það búið að renna síðan 1974 út í Þingvallavatn, algjörlega ónýtt. Það vatn sem rennur niður Ölfusið og smákólnar gæti hæglega runnið í gegnum þrjú, fjögur sett af gróðurhúsum, eftir því hvaða hita menn þurfa til þess að framleiða. Það gæti líka sem best nýst til að renna í gegnum þrjár til fjórar landeldisstöðvar ef út í það er farið, en það er annað sem við tökum seinna. En þetta eru möguleikarnir, herra forseti. Þeir eru óendanlegir.

Og hvað getum við gert? Á sínum tíma, og það hefur verið sagt hér í sölum Alþingis allan þann tíma sem ég hef verið hér, sem er nú ekki mjög langur, voru menn svo hrifnir af því að hér var gerður tollasamningur og samningur við bændur í garðyrkju og það gekk allt svo ljómandi vel. Hvað gekk svona ljómandi vel? Jú, bændur voru að framleiða gúrkur og tómata og papriku. Allt annað var flutt inn, engar hömlur á því hvernig verðlagningu var háttað í því. Og kaupmönnum fannst náttúrlega bráðflott að hafa bara grænmetisbændur á þessari hillu og þurfa ekkert að vera að hugsa um þá. Ég ætla að segja enn einu sinni, herra forseti, að svo háðir eru grænmetisbændur kaupmannavaldinu í Reykjavík að ég er ekki enn þá búinn að hitta kartöflubónda sem er tilbúinn að koma fram undir nafni og segja mér frá viðskiptakjörum sínum vegna þess að hann veit að ef hann gerir það þá lendir hann í vandræðum hjá kaupmönnunum í Reykjavík. Þetta er óþolandi aðstaða og við þurfum að hugsa um þetta fólk.

Við þurfum líka að vita meira um verðlagningu á landbúnaðarvörum yfir höfuð. Við þurfum að vita það nákvæmlega og það liggur ekki á lausu. Sá sem hér stendur hefur gert ýmsar tilraunir til þess að reyna að komast að hinu sanna í þessu máli. Það er ekki auðvelt og það þarf að fara í sérstakar vendingar til að fara yfir það, t.d. ef við tökum sauðfjárbóndann, þótt hann sé ekki til umræðu hér, og hvað hann fær í sinn hlut, hvað sláturleyfishafinn fær, hvað ríkið fær í virðisaukaskatt af sölunni og hvað verslunin fær fyrir að umsetja vöruna. Þetta dæmi kom aftur upp um daginn vegna þess að þá var verið að lækka verð til nautgripaframleiðenda um 5%, ef ég man rétt. Á sama tíma hækkar nautakjöt úti í búð.

Þá spyr ég, eins og ég spurði hér áður þegar sauðfjárbændur voru hýrudregnir um 30% á einu bretti: Hvert fara peningarnir? Í því tilfelli kom í ljós eftir langa mæðu að þeir runnu til sláturleyfishafa. Það er líka vegna þess að við höfum ekki verið nógu einörð í því að styðja við sláturleyfishafa til að þeir geti sameinast, unnið meira saman án þess að samkeppnislög séu að trufla þá, eins og reynst hefur vel í mjólkurframleiðslu. Þar er ágóðinn, af því að það er orðin sérhæfing, kannski 3 milljarðar á ári; neytendur fá 2 milljarða, bændur 1 milljarð. Þetta sagði nú sá mæti og ágæti fyrrum félagi okkar, Ögmundur Jónasson, og það hefur enginn annar útskýrt þetta jafn vel, finnst mér, og hann gerði á sínum tíma.

Hvað þurfum við að gera í þessu? Grænmetisrækt, bæði útirækt og undir gleri, er líklega stærsti einstaki sprotinn núna sem við getum haft áhrif á að vaxi hvað mest inn í framtíðina, bæði til þess að við fáum innan lands fjölbreyttari innlenda framleiðslu sem við vitum hvernig er framleidd, sem við vitum að er ekki háð eiturefnanotkun, sem við vitum að er framleidd með vistvænni orku, sem við vitum að hefur minna kolefnisspor en grænmetið sem flutt er langa leið á okkar disk. Þetta er ástæða númer eitt. Ástæða númer tvö er sú að auðvitað eiga bændur líka að fara að framleiða dýrari afurðir. Með þeim samningi sem gerður var á sínum tíma um tómata, gúrkur og paprikur, með mikilli virðingu fyrir því grænmeti, voru menn læstir fastir í þessu. Þetta hefur þær afleiðingar að líklega síðustu fjögur, fimm ár hefur hlutdeild íslensks grænmetis í sölu í verslunum á Íslandi minnkað um fimmtung.

Þetta er náttúrlega algjör öfugþróun og alveg gjörsamlega í andstöðu við allt sem skynsamlegt og rétt getur talist. Auðvitað eigum við að greiða mönnum leið til þess að geta framleitt fjölbreyttari vöru. Það hagnast allir á því. Bændur hagnast á því. Neytendur hagnast á því. Landið sem heild hagnast vegna þess að framleiðslan eykst. Möguleikinn er sá að það er hægt að flytja út íslenskt grænmeti vegna þess að það hefur þessa sérstöðu.

Ef menn efast um það sem ég er að segja núna skal ég nefna eitt lítið dæmi. Ungir menn í Danmörku tóku upp á því fyrir nokkrum árum að flytja agúrkur frá Íslandi til Danmerkur. Agúrkan sem þeir fluttu frá Íslandi var dýrari en það sem Danir kalla vistvæna gúrku, sem selst í verslunum þar við dágott verð. Hvað gerðist? Íslenska agúrkan fékk þvílíkar móttökur í Danmörku að þessir ungu menn fengu ekki nóg. Framleiðslan á Íslandi dugði ekki. Það var ekki hægt að afhenda til þeirra allt árið eins og þeir hefðu kosið.

Þannig að ég segi aftur: Möguleikarnir eru til, herra forseti. Það þarf einfaldlega að gera þessu fólki kleift með einföldum aðgerðum að nýta kraftinn sem býr í því. Þá kemur það upp enn einu sinni: Við skulum afhenda þessu fólki orkuna á sama verði og annarri stóriðju. Það er engin hemja, vegna þess að í dæminu sem ég tók áðan, sem ættað er úr Reykholti í Biskupstungum, eru þrjár stórar stöðvar sem notuðu fyrir nokkrum árum samtals jafn mikið rafmagn, jafn mikla orku og Árborg öll. En menn fengu orkuna til sín á sama verði og maður sem setur þvott í þvottavél. Þetta er náttúrlega fyrir neðan allar hellur, herra forseti. Og dreifikostnaðurinn — virkjanirnar eru handan við hálsinn. Það er allra hluta vegna heimskulegt að lækka ekki þetta verð og gera fólki kleift að framleiða meira.

Ég er búinn að segja það nokkrum sinnum áður og ég ætla að gera það einu sinni enn: Fyrir nokkrum árum stakk ég upp á því, og fleiri með mér, að Íslendingar færu að framleiða kryddjurtina wasabi. Menn horfðu framan í mig eins og sauðfé í bílljósum og héldu að ég væri bara farinn að rugla, eins og maður gerir stundum. En nú er sem betur fer farið að framleiða þessa afurð á Íslandi. Hún hefur hlotið mjög góða dóma, er mjög vel heppnuð.

Ég er búinn að segja það einu sinni eða tvisvar eða þrisvar áður í ræðustól og ég ætla að segja það enn einu sinni: Möguleikarnir birtast m.a. í því að á síðasta ári varð uppskerubrestur á vanillu í Bangladess. Hvað þýddi það? Það þýddi að heimsmarkaðsverð á vanillugramminu kostaði eins og gramm af silfri. Ef einhver hefði sagt við mig einhvern tímann: Íslendingar geta ræktað silfur, hefði ég fagnað gífurlega og viljað hvetja til þess að það væri gert.

Herra forseti. Ef við Íslendingar styðjum við bændur sem eru í garðyrkju, getum við farið að framleiða jafnoka silfurs að verðmæti, sem er vanilla. Þetta er bara eitt dæmi. Við getum aukið þessa framleiðslu að magni og fjölbreytni um langa framtíð, nánast endalaust. Haft nóg fyrir okkur og eitthvað eftir til að flytja út og okkur veitir ekki af á næstu misserum og næstu árum að auka útflutningstekjur til að styðja við þjóðfélagið þegar við erum á leið upp úr öldudalnum.