151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

búvörulög.

224. mál
[15:08]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni fyrir framsöguna og fyrir þessa umræðu sem er að sjálfsögðu mjög áhugaverð og mikilvæg. Ég lýsi ánægju minni með þann samning sem var gerður nú á vormánuðum við garðyrkjuna upp á u.þ.b. 200 millj. kr. sem koma í formi beingreiðslna sem er að sjálfsögðu jákvætt. En ég hefði viljað sjá betur gert í þessum efnum. Það er löngu tímabært að fara að treysta grundvöll íslenskrar grænmetisframleiðslu vegna þess að hún er okkur mjög mikilvæg og ekki síst nú á þeim tímum sem við höfum gengið í gegnum og lýtur ekki síst að matvælaöryggi. Auk þess kemur hún að kolefnisspori og fleiri umhverfisþáttum.

Gæði framleiðslunnar eru síðan einstök hér á Íslandi miðað við önnur lönd. Þar hefur vatnið ekki síst mikið að segja, eins og nefnt hefur verið. Það er allt í lagi að segja frá því hér að ég skoðaði einu sinni döðlubúgarð í Miðausturlöndum. Þessar döðlur þóttu mikið lostæti og voru pakkaður inn í mjög smekklega kassa. Þegar við skoðuðum okkur um og fórum að spyrjast fyrir um vatnið og annað slíkt þá kom í ljós að vatnið sem notað var til vökvunar kom reyndar úr skolpi, hafði að vísu verið hreinsað en ekki með fullnægjandi hætti. Þegar maður frétti þetta þá smakkaði maður þessar döðlur með svolítið öðru hugarfari en maður gerði í upphafi. En þetta sýnir það bara að við eigum að sjálfsögðu að halda á lofti þeim miklu gæðum sem eru í íslenskri grænmetisframleiðslu. Það er ekki síst sá styrkur sem við búum að og gerir okkur kleift að markaðssetja þessa vöru sem við eigum að gera á erlendum vettvangi, auk þess að hvetja íslenska neytendur til að nýta og njóta íslenskrar grænmetisframleiðslu.

Ég held að skilningur neytenda á íslenskri grænmetisframleiðslu fari almennt vaxandi, og það er ánægjulegt. En þá er líka mikilvægt að rétt sé staðið að merkingunum, eins og kom fram hér rétt áðan í umræðunni. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir nefndi réttilega að það er mjög mikilvægt að merkingarnar séu réttar og ekki sé verið að reyna að koma vörum að utan inn á okkar markað undir fölskum merkjum. Það er afar mikilvægt að vel sé staðið að þessu vegna þess að fólk treystir því að um íslenska framleiðslu sé að ræða þegar hún er merkt þannig.

Það sem er jákvætt við þennan samning, sem gerður var á vormánuðum, er að hann eflir útiræktun á grænmeti sem of fáir bændur stunda. Þar er nauðsynlegt að auka við. Það þekkja það margir að fátt er betra en þegar íslenska framleiðslan er að koma á markað og menn horfa til þess með tilhlökkun. En eins og ég nefndi áðan hefði ég viljað sjá betur í lagt hvað þennan samning varðar og ástæðan er að hluta til þeir erfiðleikar sem við höfum gengið í gegnum vegna veirufaraldursins. Það er eins og það þurfi alltaf eitthvert utanaðkomandi áfall, ef svo má segja, til að ýta við mönnum til þess að þeir vakni til lífsins með það að við eigum hér frábæran landbúnað og grænmetisframleiðslu. Ég hefði viljað sjá að hér hefði meira verið bætt í.

Það er verið að innheimta fé af skattborgurum þessa lands vegna umhverfismála. Það vill nú þannig til að stefna þessarar ríkisstjórnar hefur um margt verið sú að skattleggja almenning í gegnum kolefnisjöfnun og þau umhverfismál sem tengjast því. Ég hefði kosið að þeir fjármunir hefðu þá verið nýttir á betri hátt hvað varðar t.d. að styrkja við grænmetisframleiðslu og landbúnað almennt. Við sjáum það t.d. að kolefnisskatturinn, sem er á hvern lítra af bensíni og dísilolíu, skilaði, þegar þessi ríkisstjórn tók við, á ársgrundvelli um 3,5 milljörðum kr. í ríkissjóð. Hann á að skila á næsta fjárlagaári um 6,2 milljörðum þannig að hann hefur hækkað um helming í tíð þessarar ríkisstjórnar. En aðeins brot af þessum skatti rennur til umhverfismála. Það er einmitt kjarni málsins, að neytendur og skattborgarar þessa lands eiga í raun rétt á því að vita í hvað skatturinn fer og hvort hann sé þá notaður til umhverfismála. Hægt væri að taka hluta af þessum skatti til þess einfaldlega að auka við þennan samning, svo að dæmi séu nefnd, við grænmetisframleiðendur og styðja þá myndarlega við íslenska grænmetisframleiðslu þótt vissulega sé þetta spor í rétta átt.

En svo spyr maður sig, þegar þessum samningi lýkur, hvað svo, hvað tekur svo við? Er þessu tímabili þá bara lokið, þessu átaki, og förum við þá bara á sama reit aftur? Við eigum hreina íslenska orku og það er fullkomlega eðlilegt að hún sé nýtt til þess að greiða niður svo góða framleiðslu sem felst í íslenskri grænmetisframleiðslu.

Mig langar aðeins að koma inn á, herra forseti, kolefnissporið og hversu mikilvæg íslensk grænmetisframleiðsla er vegna þess. Mikið hefur verið rætt um það að draga úr því kolefnisspori sem Íslendingar skilja eftir sig á hverju ári. Við þekkjum þá umræðu og stefna stjórnvalda hefur miðað að því að búið verði að kolefnisjafna Ísland árið 2050. Það er alveg ljóst að það verður ekki gert nema með víðtækum aðgerðum á mörgum sviðum og liður í því gæti einmitt verið að efla innlenda matvælaframleiðslu til að draga úr mikilli kolefnismengun sem hlýst af innflutningi. Gleymum því ekki, það er verið að flytja þessar vörur um langan veg á sama tíma og við getum ræktað þær hér heima. Í því felst mikill tvískinnungur að menn skuli enn vera að flytja inn svo mikið magn af grænmeti og tala á sama tíma um mikilvægi þess að draga úr kolefnismengun og öllu því á sama tíma og hægt er að framleiða þessa vöru hér. En við styðjum ekki nógu vel við bakið á þeirri framleiðslu. Þetta er eitthvað sem við verðum að fara að taka alvarlega til skoðunar með miklu öflugri hætti en hér er gert að mínu mati. Auk þess fylgir þessu gjaldeyrissparnaður og þetta eykur fæðuöryggi þjóðarinnar, styrkir byggðirnar og er atvinnuskapandi.

Kolefnissporið sem ræktun á grænmeti og ávöxtum skilur eftir sig er æðimismunandi eftir tegundum. Samkvæmt gögnum sem Bændablaðið hefur sett fram þá hefur kolefnislosun innlendu grænmetisframleiðslunnar verið reiknuð út frá sömu forsendum og erlend framleiðsla og erlendu tölurnar sem þar eru settar fram eru sagðar byggðar á mjög varfærnu mati. Þannig er ræktun á íslensku salati sögð skilja eftir sig einungis 26,1% af því kolefni sem innflutt erlend salatframleiðsla skilur eftir sig. Þetta eru náttúrlega ótrúlegar tölur, herra forseti, og sýnir okkur eitt og sér að við eigum að setja allan kraft í það að íslensk grænmetisframleiðsla verði aðalfæða Íslendinga þegar kemur að grænmetisfæði. Þá skilur gúrkuframleiðsla eftir sig um 43,7% og venjulegir tómatar um 54,8% en þessi munur liggur einkum í flutningum.

Það vekur síðan athygli að í samanburði á útiræktun, t.d. á kartöflum, koma íslenskir kartöflubændur aðeins betur út en kollegar þeirra í Bretlandi og Hollandi. Skýrist það einkum af orku sem er notuð í kæligeymslum og kolefnislosun í flutningum. Þar skilar íslenska kartöfluræktin um 8 prósentustigum lægri kolefnislosun en erlenda framleiðslan. Það er þrátt fyrir hlutfallslega minni uppskeru og meiri olíunotkun á hvern hektara á Íslandi. Varðandi útiræktað grænmeti, eins og gulrætur og hvítkál og fleira, er kolefnislosun á Íslandi 88,21% af því sem innflutta grænmetið skilur eftir sig.

Þegar gögn frá Sambandi garðyrkjubænda um íslenska blómarækt eru skoðuð, svo að það sé nefnt hér, kemur í ljós að sú framleiðsla er í algerum sérflokki í samanburði við innflutt afskorin blóm. Þar er kolefnisspor íslenskra afurða aðeins 18,44% sem hlutfall af kolefnisspori innfluttra afurða. Þar kemur líka fram að kolefnisspor hollenskra blóma er rúmlega 16 sinnum stærra en afskorinna blóma sem ræktuð eru á Íslandi. Skýringin liggur að stærstum hluta í þeirri hreinu orku sem notuð er á Íslandi. Raforka sem hollenskir bændur nota losar um 100–200 sinnum meira af kolefni en íslensk raforkuframleiðsla. Við sjáum bara hve ávinningurinn er gríðarlega mikill af því að við nýtum okkar hreinu orku í þá vistvænu og góðu framleiðslu sem íslensk grænmetisframleiðsla er.

Það er mjög sérkennilegt, eins og kom fram í þessari umræðu, að raforkuverð til garðyrkjubænda í Hollandi skuli vera lægra en raforkuverð til garðyrkjubænda á Íslandi. Við eigum náttúrlega ekki að vera þekkt fyrir svona lagað, við Íslendingar sem eigum gnótt af íslenskri orku, að við skulum ekki geta boðið íslenskum grænmetisframleiðendum ódýrustu raforku í heimi, en þannig ætti það í raun að vera. Ég ætla að vona að við eigum eftir að upplifa þann dag að svo verði, að íslenskir grænmetisbændur eigi aðgang að ódýrustu orku í heimi. Það er það sem við eigum að stefna að. Ávinningurinn er svo margfaldur að það er í raun engin spurning að þetta er eitthvað sem á að stefna að af öllum krafti.

Ég vil nefna það í lokin, herra forseti, að Miðflokkurinn hefur lagt fram aðgerðaáætlun í formi þingsályktunartillögu um að stórefla innlenda matvælaframleiðslu. Þetta er eitt af forgangsmálum okkar í þinginu og þar leggjum við auk þess upp úr því að öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi sé ávallt þegar landbúnaðurinn er annars vegar og íslenska garðyrkjan þar á meðal. Það er grundvöllurinn að því að við fáum fleiri til þess að fara að framleiða íslenskt grænmeti, koma að ræktuninni, að menn hafi fyrirsjáanleika um rekstrarumhverfi, að þeir þurfi ekki að horfa upp á það að hugsanlega eigi raforkan eftir að hækka á ný. Það er kannski, finnst mér, gallinn við þetta mál að menn vita í raun ekki hvað tekur við þegar þessum samningi sleppir og búið verður að úthluta þessum 200 milljónum. Þetta þarf að vera til frambúðar, að hér sé stutt við garðyrkjuna með þeim hætti að það sé vænlegur kostur, fyrir þá sem stunda þessa framleiðslu, að auka hana og fyrir nýja að koma inn í greinina til frambúðar.

Að því sögðu þá styð ég þetta mál að sjálfsögðu. Þetta er skref í rétta átt og viðurkenning á því að þessi grein skiptir okkur verulegu máli. Hún þarf að vaxa og dafna. Auðvitað á að hvetja íslenska neytendur til þess að kaupa íslenskt grænmeti frekar en erlent og þá skiptir verðið líka máli. Þegar raforkan hefur lækkað í verði til grænmetisbænda, vonandi er fram líða stundir, gæti verð á þessari vöru lækkað sem því nemur, að einhverju leyti kannski. Þá sjá fleiri sér hag í því að kaupa hana. En umfram allt eru það náttúrlega fyrst og fremst gæði vörunnar sem allir þekkja og Íslendingar eru tilbúnir til að greiða hærra verð fyrir íslenska tómata, svo að dæmi sé tekið, sem eru margfalt betri en þeir innfluttu. Það hefur vissulega mikið að segja. En eins og ég sagði áðan hefur skilningur neytenda gagnvart þessari framleiðslu vaxið mjög og er orðinn mun jákvæðari. Það sýnir okkur að við erum svo sannarlega á réttri leið. Vonandi verður það þannig að við getum, þegar upp er staðið, sagt að hér hafi verið stigin skref í rétta átt sem markaði upphafið að því að Ísland varð stórframleiðandi á sviði grænmetisafurða.