151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

búvörulög.

224. mál
[15:24]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég ætla bara að kvitta fyrir mjög góða umræðu, það liggur fyrir. Við höfum fundið þann góða anda sem ríkir í garð garðyrkjunnar og að þingmenn vilja gera betur. Það er þannig að það má alltaf gera betur. Þetta er þó, eins og hér hefur komið fram, gott skref í þá átt að bæta stöðu garðyrkjunnar. Það hefur verið fjallað um það áður að handan Miðjarðarhafsins, sem hér var vitnað til áðan, á Ítalíu, eru mánaðarlaun í garðyrkju u.þ.b. klukkustundarlaun á Íslandi. Það er sá raunveruleiki sem blasir við okkur í garðyrkjunni, í samkeppninni. Við höfum heilnæmið, vatnið, orkuna, góða fólkið og síðan er kolefnissporið okkar megin í þessari markaðssetningu. Það er líka mikilvægt, þegar við erum að tala um íslenska framleiðslu, að hún sé vel merkt sem íslensk framleiðsla. Við munum geta selt það vörumerki mjög dýrt vegna þess að það mun alltaf bera með sér gæði.