151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

almenn hegningarlög.

267. mál
[15:34]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á almennum hegningarlögum með það að markmiði að styrkja refsivernd einstaklinga gagnvart brotum gegn kynferðislegri friðhelgi. Með frumvarpinu er ekki síst litið til þeirra samfélagslegu breytinga sem orðið hafa með aukinni tæknivæðingu og þróun viðhorfa til kynferðisbrota á Íslandi. Ljóst þykir að gildandi löggjöf og réttarframkvæmd veitir kynferðislegri friðhelgi hvorki heildstæða né fullnægjandi réttarvernd, sem birtist meðal annars í óskýrri dómaframkvæmd og neikvæðri upplifun brotaþola.

Aðdragandi frumvarpsins er nokkur og má benda á að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er fjallað um að stefnt sé að aðgerðum til að sporna við stafrænu kynferðisofbeldi. Frumvarp þetta er liður í þeirri vinnu. Eins og sést af ítarlegri greinargerð frumvarpsins hefur það verið vandlega undirbúið og m.a. verið stuðst við akademískar rannsóknir, viðtöl við haghafa innan réttarvörslukerfisins og tekið mið af lagabreytingum og stefnumótun sem farið hefur fram erlendis. Auk þess hefur verið litið til þeirra lagafrumvarpa sem áður hafa verið lögð fram á Alþingi og fjalla um sama eða nátengt efni.

Stafræn tækni hefur umbylt samskiptum mannkyns, bæði að efni og formi. Það felur í sér gríðarleg tækifæri til framfara en einnig möguleika til að festa í sessi skaðlega hegðun og háttsemi sem birtist með nýjum hætti. Dæmi um þetta er þegar stafræn tækni er nýtt til að brjóta gegn kynferðislegri friðhelgi einstaklinga. Áður en lengra er haldið er rétt að geta þess að ýmis hugtök hafa verið notuð yfir slíka háttsemi í gegnum tíðina, svo sem stafrænt kynferðisofbeldi, hrelliklám, hefndarklám og kynlífskúgun. Þessi þróun í hugtakanotkun hefur ekki síst komið til vegna tilrauna til að bregðast við tilteknum birtingarmyndum brotanna.

Þegar rætt hefur verið um stafrænt kynferðisofbeldi hefur gjarnan verið átt við háttsemi sem felst í því að nýta stafræn samskipti til að búa til, dreifa eða birta kynferðislegt myndefni af öðrum í heimildarleysi. Hugtakið hrelliklám var tilraun til að fanga það inngrip sem háttsemin getur falið í sér gegn friðhelgi einstaklinga. Í ljósi mikilvægis þess að texti hegningarlaga sé ekki of atviksbundinn, og auk þess eins hlutlaus gagnvart tækni og miðlun og unnt er, er lagt til að almenn hegningarlög vísi til brota gegn kynferðislegri friðhelgi.

Núverandi löggjöf veitir aðeins brotakennda réttarvernd þegar kemur að kynferðisbrotum sem framin eru með stafrænum hætti. Það orsakar m.a. ósamræmi í dómaframkvæmd. Þeim lagabreytingum sem lagðar eru til með frumvarpinu er ætlað að skýra réttarumhverfi brota gegn kynferðislegri friðhelgi og stuðla að vandaðri meðferð slíkra mála innan réttarvörslukerfisins og tryggja þannig, sem framast er unnt, þá grundvallarhagsmuni sem felast í persónulegu frelsi, mannhelgi og kynfrelsi einstaklinga.

Kjarni þessarar breytingar felst í nýju ákvæði 199. gr. a í kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga sem taki til kynferðislegrar friðhelgi. Með ákvæðinu yrði gert refsivert að útbúa, dreifa eða birta ljósmynd, kvikmynd, texta eða annað sambærilegt efni, sem sýnir nekt eða kynferðislega háttsemi, af öðrum í heimildarleysi. Þá verður einnig gert refsivert að hóta notkun á þess konar efni sem og að falsa slíkt efni. Þá felur frumvarpið einnig í sér breytingar á 228. gr. og 229. gr. almennra hegningarlaga en þeim breytingum er fyrst og fremst ætlað að skýra þá réttarvernd sem ákvæðin veita nú þegar, ekki síst í ljósi þeirra áskorana sem stafrænn veruleiki hefur í för með sér.

Að lokum eru lagðar til breytingar á lögum um meðferð sakamála í því skyni að tryggja virkni þeirra breytinga sem lagðar eru til á hegningarlögum en um efni frumvarpsins og skýringar við einstök ákvæði þess vísast að öðru leyti til ítarlegrar greinargerðar sem því fylgir.

Hæstv. forseti. Við framlagningu þessa frumvarps er markmiðum ríkisstjórnarinnar, um að bregðast við stafrænu kynferðisofbeldi, komið til framkvæmda. Á undanförnum árum hafa sést þess skýr merki í þingsal að þverpólitískur stuðningur er við aðgerðir sem miða að því að styrkja réttarvernd kynferðislegrar friðhelgi einstaklinga á sífellt stafrænni tímum. Vonandi stuðlar það að framgangi frumvarpsins. Það er mikilvægt að löggjafinn, sem gætir að því þegar samfélagsleg og tæknileg þróun skapar svigrúm fyrir nýjar birtingarmyndir kynferðisbrota og brota gegn friðhelgi, bregðist við til að tryggja réttindi borgaranna. Ofbeldi felur ekki bara í sér líkamlegar barsmíðar. Þeir sem beita því ofbeldi sem hefndarklám felur í sér vita að þeir eru að brjóta á viðkomandi með grófum hætti, leggja sálarlíf viðkomandi í rúst og gera fórnarlömbin óörugg og hrædd og þannig mætti áfram telja. Kynferðisofbeldi, hvort sem það er framið með stafrænni tækni eða ekki, er ekki aðeins vandi á Íslandi heldur verkefni sem öll ríki heims þurfa að berjast gegn.

Virðulegur forseti. Allir eiga rétt á friðhelgi. Það á einnig við um kynferðislega friðhelgi. Það er mikilvægt að styrkja réttarvernd einstaklinga með hliðsjón af þeim samfélagslegu breytingum sem hafa orðið með aukinni tæknivæðingu og þróun í viðhorfum til kynferðisbrota á Íslandi. Um leið og við nýtum vel þá möguleika sem hin stafræna bylting býður upp á fyrir Ísland þurfum við að vera vakandi fyrir því að lögin séu ávallt uppfærð í takt við tækniframþróun, rétt eins og stýrikerfið í tölvunum. Viðhorfið um að sending nektarmynda feli sjálfkrafa í sér samþykki fyrir opinberri dreifingu efnisins er jafn úrelt og viðhorf um að konur sem birta af sér kvenlegar sjálfsmyndir séu að kalla yfir sig kynferðislegt áreiti.

Virðulegur forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.