151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

almenn hegningarlög.

267. mál
[15:42]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Ég tek undir þau sjónarmið hversu mikilvægt það er að málið komi fram og verði að lögum af því að við sjáum allt of mörg dæmi um þessa erfiðu lífsreynslu sem brotaþolar hafa einmitt verið að deila, m.a. á Instagram-reikningi einstaklings sem kallast „Mín eign“, þar sem hún vekur athygli á þessum málum og hvernig er að lenda í slíku.

Varðandi þær spurningar sem hv. þingmaður kemur með, kannski fyrst um lögregluna og hvernig hún er í stakk búin til að taka á þessu, þá vísa ég til skýrslu Maríu Rúnar Bjarnadóttur þar sem farið er sérstaklega í það hvernig lögreglan eigi að taka á svona málum, bæði hvað varðar rannsókn og þekkingu og það þurfi að laga verkferla, það verði kennt í Lögregluskólanum eða háskólanáminu varðandi þessi brot sérstaklega og hversu mikilvægt er að fylgja því eftir þegar svona lög eru samþykkt. Þar er farið vel yfir það sem lögreglan þarf að búa yfir. Það hefur auðvitað verið sett sérstakt fjármagn í kynferðisbrotadeildir lögreglunnar á öllum landsvæðum þar sem er sérstakur aðili í þessum málum, sérstakt fjármagn sem fylgdi því, en auðvitað hefur það ekki algjörlega breytt þeim biðtíma sem er sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Það þarf að bregðast við því en það eru alla vega komnir sérstakir rannsakendur úti um allt land sem ættu að geta tekið á þessum brotum. Það er afar mikilvægt í því að takast á við þau.

Varðandi landamærin, eins og hv. þingmaður nefnir, þá held ég einmitt að sú leið sem við förum hér, að gera þetta svolítið tæknihlutlaust og að kalla þetta ofbeldi, brot gegn kynferðislegri friðhelgi, þá séum við svolítið að taka þau út úr jöfnunni. Við leggjum meiri áherslu á að kalla þetta brot gegn aðila sem kærir til lögreglunnar, sama hver stafræni veruleikinn verður hverju sinni. Þá erum við að taka það út úr myndinni að það verði að vera í stafrænum veruleika. Það er hægt að fremja brot gegn kynferðislegri friðhelgi án þess að nota stafrænan veruleika. Ég held að með því séum við að svara þessu og gera þetta einfaldara. (Forseti hringir.) En það verður auðvitað líka áskorun við þessi nýju lög sem ég vona að leysist hratt og vel.