151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

almenn hegningarlög.

267. mál
[15:44]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svörin en velti áfram fyrir mér möguleikum lögreglunnar á að takast á við slík brot, um leið og ég vil alls ekki draga úr mikilvægi þessa frumvarps, hreint ekki. Það er eingöngu það að hvetja hæstv. dómsmálaráðherra til dáða í að efla lögregluna, efla þær deildir sem rannsaka þessi mál. Þetta er sjálfstætt ofbeldi í rauninni sem þó fylgir oft annars konar ofbeldi milli aðila. Þessi tegund kynferðisbrota er oft fylgifiskur annars konar ofbeldisbrota. Þá erum við að tala um ofbeldi í nánum samböndum og líka kynferðisofbeldi í nánum samböndum eða ofbeldi innan vinahópa þar sem eftir samvistarslit eða vinslit, eða hvað sem er, brestur skyndilega á með hótunum um dreifingu svona efnis ef brotaþoli gerir ekki eitthvað ákveðið. Þessi mál eru því ótrúlega flókin. Þau þurfa vandaða rannsókn og mikla yfirlegu. Það er kannski það sem ég hef áhyggjur af varðandi mannafla lögreglunnar, að þau mál lendi undir. Þau eru, eins og ég segi, mjög íþyngjandi þar sem fylgir nagandi og langvarandi óvissa um að það sé efni af þér í gangi á internetinu úti um allan heim. Það er bara sjálfstætt brot og verulega íþyngjandi.