151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

almenn hegningarlög.

267. mál
[15:55]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að óska hæstv. dómsmálaráðherra innilega til hamingju með þetta frumvarp. Ég fagna því mjög að það sé komið fram hér. Í langan tíma hefur verið rætt um þörf fyrir að taka sérstaklega á stafrænu kynferðislegu ofbeldi, og eins og hv. þingmaður á undan mér kom ágætlega inn á hafa áður verið lögð fram frumvörp þess efnis. Fyrrverandi þingmaður, Björt Ólafsdóttir, lagði fram slíkt frumvarp eins og fram kemur í greinargerðinni og síðar hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson. Ég lít þannig á að það hafi verið ákveðin vegferð í átt að því sem hér liggur fyrir og mér sýnist við vera með mjög vandað frumvarp, og að búið sé að hugsa út í helstu þætti.

Það sem ég ætlaði kannski einna helst að koma inn á í ræðu minni, og hæstv. ráðherra gerði það reyndar í andsvari, er þetta með falsanir á efni sem töluvert er orðið um. Það er mjög mikilvægt að skýrt sé tekið á því líka. Fyrir svona miðaldra tepru eins og mig myndi ég ráðleggja fólki að vera ekkert að taka af sér nektarmyndir og senda út í kosmósið. Það gagnast víst lítið í nútímasamfélagi. Það er alveg ljóst að enginn á að þurfa að þola að slíkar myndir séu sendar áfram eða þær birtar án leyfis viðkomandi. Mér sýnist frumvarpið taka nokkuð vel á því .

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu frekar heldur bara fagna þessu og óska hæstv. ráðherra til hamingju með framlagninguna og óska þess líka að hv. allsherjar- og menntamálanefnd, sem fær þetta mál til umfjöllunar, geti farið vel og ítarlega yfir það en jafnframt hratt og örugglega.