151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

staðfesting ríkisreiknings 2019 .

277. mál
[16:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að við þurfum að fá góða greinargerð um mismuninn á þessum uppgjörsaðferðum til að geta glöggvað okkur á því hvaða breytur það eru sem mestu skipta um ólíka niðurstöðu, en niðurstaðan er töluvert ólík, eins og ég rakti í framsögu minni. Ég tel hins vegar, ef við skoðum frumvarpið og greinargerðina með því, að þetta sé ágætlega skýrt hér í töflu 1, svo að dæmi sé tekið. Það munar mjög verulegu um mismunandi meðferð á hagnaði félaga í eigu ríkisins, eða um 60 milljörðum, milli þessara aðferða. Sama gildir um hreina fjárfestingu samkvæmt ríkisreikningi sem eru áhrif á gjöldin á meðan hitt eru áhrif á tekjurnar. Þannig eru dregin fram þessi helstu atriði í töflu 1, sem heitir hreinlega: Skýringar á mun í uppgjörsaðferðum þjóðhagsreikninga (GFS) og ríkisreiknings (IPSAS). Í töflu 2 er síðan farið út í aðeins aðra sálma þar sem m.a. er horft til áætlunar.

Við bjóðum fram frekari skýringar eftir því sem eftir því verður kallað í meðförum nefndarinnar. En ég get ekki annað en verið sammála hv. þingmanni um að það er mikilvægt að þessi munur liggi fyrir.