151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[16:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um menntastefnu fyrir árin 2020–2030.

Framtíðarsýn menntastefnu til ársins 2030 byggist á einkunnarorðunum: Framúrskarandi menntun alla ævi. Helstu gildi menntastefnunnar eru þrautseigja, hugrekki, þekking og hamingja og er þeim ætlað að styðja við framtíðarsýnina.

Menntastefnan byggist á fimm stoðum sem styðja eiga við framtíðarsýn og gildi menntastefnunnar. Stoðirnar eru í fyrsta lagi jöfn tækifæri fyrir alla, í öðru lagi kennsla í fremstu röð, í þriðja lagi hæfni fyrir framtíðina, í fjórða lagi vellíðan í öndvegi og að lokum gæði í forgrunni.

Menntun er lykillinn að tækifærum framtíðar og eitt helsta hreyfiafl samfélaga og velsældar mannkyns. Á tímum fádæma umskipta, óvissu og örra tæknibyltinga verða þjóðir heims að búa sig undir aukinn breytileika og sífellt flóknari áskoranir.

Virðulegi forseti. Framtíðarhorfur íslensku þjóðarinnar velta á samkeppnishæfni og sjálfbærni íslenska menntakerfisins. Velgengni byggir á vel menntuðum einstaklingum með skapandi og gagnrýna hugsun, félagsfærni og góð tök á íslensku og erlendum tungumálum til að takast á við hnattrænar áskoranir.

Menntun styrkir, verndar og vekur viðnámsþrótt einstaklinga og samfélaga. Með menntastefnu verður lögð áhersla á að styrkja viðhorf Íslendinga til eigin menntunar með vaxtarhugarfar að leiðarljósi. Þekkingarleitinni lýkur aldrei og menntun, formleg sem óformleg, er viðfangsefni alla ævi. Skólar og aðrar menntastofnanir skulu vera eftirsóknarverðir vinnustaðir og kennarastarfið áhugavert þar sem það er meðal mikilvægustu starfa samfélagsins af því að það leggur grunninn að öllum öðrum störfum í samfélaginu.

Til að ná markmiðum menntastefnu eru settir fram 30 áhersluþættir með stoðunum fimm. Áhersluþættirnir taka til þess að hér verði öflugt og sveigjanlegt menntakerfi sem stuðli að jöfnum tækifærum til náms því að allir geta lært og allir skipta máli. Allir hafa tækifæri á eigin forsendum og án nokkurrar mismununar til að þroskast og auka hæfni sína.

Virðulegur forseti. Í greinargerð með tillögunni er síðan farið ítarlegar í þau markmið og þær leiðir sem nauðsynlegar teljast til að ná megi meginmarkmiðum sem fram eru sett í tillögunni.

Menntastefnan er mótuð með aðkomu fjölmargra aðila og skólasamfélaginu, m.a. með fundaröðinni Menntun fyrir alla um land allt haustið 2018. Auk þess voru haldnir fundir haustið 2019 um menntun fyrir alla á sex svæðisþingum tónlistarskóla og einnig með samstarfi við foreldra, börn, ungmenni, atvinnulíf, aðra hagsmunaaðila og Efnahags- og framfarastofnunina. Stefnan tekur mið af alþjóðlegum sáttmálum, samningum og skuldbindingum, svo sem barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þar er menntun fyrir alla eitt lykilmarkmiða með áherslu á að tryggja jafnan aðgang að góðri menntun og stuðla að tækifærum allra til náms alla ævi. Sú stefna, markmið og áherslur sem birtar eru hér hafa heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og alþjóðlegar úttektir á menntakerfi Íslands til hliðsjónar.

Í því sambandi er sérstaklega mikilvægt að allt menntakerfið vinni markvisst að heimsmarkmiði 4.7 um sjálfbæra þróun, þannig að allir nemendur öðlist nauðsynlega þekkingu og færni til að ýta undir sjálfbæra þróun, m.a. með menntun sem er ætlað að efla sjálfbæra þróun og sjálfbæran lífsstíl, með því að hlúa að friðsamlegri menningu, með mannréttindum, kynjajafnrétti, alheimsvitund, viðurkenndri menningarlegri fjölbreytni og framlagi menningar til sjálfbærrar þróunar.

Einnig eru til hliðsjónar fjölmargar stefnur og aðgerðaáætlanir sem mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur gefið út á undanförnum árum.

Virðulegur forseti. Menntastefna þessi var unnin í víðtæku samráði við hagsmunaaðila og var m.a. birt í samráðsgátt. Alls bárust 38 umsagnir sem voru jákvæðar í garð stefnunnar. Í umsögnunum komu fram ýmsar gagnlegar athugasemdir brugðist var við.

Verði þingsályktunartillagan samþykkt verður aðgerðaáætlun ásamt árangursmælikvörðum gerð til þriggja ára í senn sem metin verður árlega. Þá er innleiðing menntastefnu lykill að því að ná fram settum markmiðum. Fylgjast þarf með framkvæmd hennar og því verður lögð áhersla á samráð, upplýsingar og mælingar á árangri.

Þingsályktunartillagan sem hér er mælt fyrir er lögð fram í þeim tilgangi að varða leið framúrskarandi menntunar á Íslandi. Það er von mín að með samþykkt hennar verði Ísland öflugt og sveigjanlegt menntakerfi sem stuðlar að jöfnum tækifærum til náms.

Mig langar að vitna hér í einn latneskan málshátt sem kjarnar menntastefnuna og er eftirfarandi, með leyfi forseta: Við lærum ekki fyrir skólann heldur fyrir lífið. Það er kjarninn í þessari menntastefnu.

Virðulegur forseti. Að svo mæltu legg ég til að þingsályktunartillögunni verði vísað til málsmeðferðar hjá hv. allsherjar- og menntamálanefnd að lokinni fyrri umræðu. Það er von mín að hv. nefnd taki góðan tíma í að ræða tillöguna og þörf fyrir hana.