151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[16:46]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að börnin okkar séu læs. Þess vegna erum við með sérstaka áherslu á læsi sem er hluti af því að menntakerfið okkar verði mun sterkara hvað þetta varðar. Það er einn þáttur í menntastefnunni sem er fjallað sérstaklega um undir liðnum A.4., sem er snemmbær stuðningur. Hann gengur út á að við veitum börnunum okkar aðstoð fyrr, þ.e. í kringum fimm, sex, sjö og átta ára aldurinn, í stað þess að aðstoða þau varðandi áskoranir sem þau upplifa á námsferlinum mun seinna. Þarna er ég til að mynda að horfa til Finnlands. Við erum búin að fara yfir það mjög gaumgæfilega hvernig fjármununum er beitt. Sértækur stuðningur kemur mun seinna hjá okkur, alveg eins og hv. þingmaður nefnir. Í þessari menntastefnu erum við að segja: Aðstoðum börnin okkar fyrr og jafnvel án greininga. Kennararnir eru mjög færir í að sjá hverjir þurfa á slíkri aðstoð að halda, hvar lesblinda er og hvar námsörðugleikar eru. Ef við gerum þetta fyrr náum við mun meiri árangri. Það er fjallað sérstaklega um þetta í menntastefnunni og metnaður minn stendur til þess að styðja betur við leikskólastigið og grunnskólastigið til að draga úr brotthvarfi seinna á framhaldsskólastiginu. Það er hárrétt sem hv. þingmaður segir: Ef þau eru ekki læs munu þau ekki njóta þeirra tækifæra sem lífið hefur upp á að bjóða.