151. löggjafarþing — 21. fundur,  17. nóv. 2020.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[16:53]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Hér voru mörg góð orð og markmið sett fram. „Við lærum ekki fyrir skólann heldur fyrir lífið“ má segja að hafi verið mottóið í þessari vinnu og mig minnir að ég hafi einhvern tímann séð endursögn Sveinbjarnar Egilssonar, sem var rektor í Bessastaðaskóla, á þessu orðtaki. Hann orðaði þetta svo og var þá reyndar að tala við pilta: Við lærum ekki til að verða lærðir heldur til að verða góðir. Það finnst mér líka vera dálítið gott leiðarljós, að menntunin eigi að verða til þess að verða betri manneskjur, verða góðir borgarar og fá meiri lífsfyllingu og fullnægju í sitt líf því að menntun hefur gildi í sjálfri sér. Það er ánægjulegt og gott í sjálfu sér að kunna t.d. pelastikk eða að kunna að beygja óreglulegar, franskar sagnir. Það getur verið mikil nautn í því líka og þetta hefur gildi í sjálfu sér og hjálpar manni að verða nýtari manneskja. En fyrst og fremst hefur þó menntun gildi í því að hún veitir okkur lykil, opnar dyr, hún er lykill að öðrum lífsgæðum, kannski lykillinn sjálfur fyrir einstaklingana, hún hjálpar okkur að finna betra líf og með meiri lífsfyllingu og meira inntaki.

Hún hefur líka gildi fyrir samfélagið, ekki bara einstaklingana heldur líka fyrir samfélagið, því að menntun gerir allt samfélagið betra, einkum og sér í lagi í því að menntun er eitthvert öflugasta jöfnunartæki sem við höfum. Ef við veitum fólki kost á að mennta sig, finna hæfileika sína og þroska þá eins og hægt er, þá aukum við um leið jöfnuð í samfélaginu, bæði hvað varðar tekjur og tækifæri til að láta að sér kveða og láta ljós sitt skína í samfélaginu og jöfnuður er kannski eitt helsta keppikefli okkar vegna þess að hann stuðlar að friðsamlegu samfélagi. Hann gefur fleira fólki tækifæri til að þroska hæfileika sína og þar með stuðlar jöfnuður og aukin menntun að aukinni sátt í samfélaginu, sátt milli hópa, sátt milli þeirra sem fá fleiri tækifæri og hinna sem fá færri tækifæri. Þetta er kannski eitt helsta gildi menntunar fyrir utan það að menntun hjálpar okkur að finna út úr því hvernig hlutirnir virka og við erum að horfa á það núna í yfirstandandi kórónuveirukreppu að með undraverðum hraða hefur tekist að finna bóluefni gegn þessari veiru og það er vegna þess að menntunarstigið er svo hátt.

Aðeins þessu skylt og í þessu sambandi vil ég nefna sérstaklega eitt atriði sem hv. þm. Inga Sæland kom líka inn á og það er nokkuð sem er áhyggjuefni okkar margra, lestrarkennslan. Hæstv. ráðherra kom líka inn á að uppi eru áform um að vera með íhlutun enn fyrr í lestrarkennslunni en verið hefur. Það er nefnilega mjög mikilvægt að byrja miklu fyrr á stuðningi við máltöku og það þarf að vera í leikskóla. Þó að núna sé unnið mjög gott starf í leikskólum þarf að vera markvissara starf þar með markvissri málörvun og þá hef ég sérstaklega í huga börn sem hafa íslensku sem annað mál. Þau eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu þarna. Án þess að ég sé að gera lítið úr vanda þeirra barna sem hafa kannski ekki fengið næga málörvun í sínum uppvexti og hafa íslensku sem fyrsta mál þá er þarna alveg sérstakur vandi á höndum vegna þess að ef við náum ekki grípa inn í þetta getur það stuðlað að miklum ófriði og mikilli hópamyndun í samfélaginu og getur orðið til þess að til verði mörg samfélög í samfélaginu. Lykillinn að þessu liggur í gegnum tungumálið og tungumálakennsluna og ef ekki tekst vel til þá getur þarna verið um tímasprengju að ræða því fólk sem lærir kannski ekki vel móðurmál sitt heima við, sem er annað en íslenska, og lærir svo heldur ekki vel íslensku í skólanum hefur ekki neitt tungumál sem það hefur lært vel og hefur algerlega á valdi sínu. Fyrir vikið á það kannski erfiðara en ella með að tjá sig og slíkt veldur hugarangri og ósátt og getur orðið til þess að fólk getur notað miður heppilegar leiðir til að tjá sig. Það eru mannréttindi að læra tungumálið sem er talað í landinu, sem er ríkjandi tungumál, eins vel og kostur er því að mál er vald.

Mér fannst ánægjulegt að sjá áherslu lagða þarna á vellíðan því að skólinn er íverustaður barnanna, vinnustaður barnanna. Þetta er sá staður þar sem börnin verja lengstum tíma og þá ekki einu sinni fyrir utan heimili, börn sem eru kannski í miklu tómstundastarfi eru kannski minnst á heimilinu af öllum stöðum þar sem þau eru en mest í skólanum, og fyrir sum börn sem búa við erfiðar aðstæður heima við getur skólinn verið griðastaður og ákaflega mikilvægur sem slíkur og gegnir ákaflega mikilsverðu hlutverki sem slíkur. En við höfum líka dæmi um að börn upplifi vanlíðan í skólanum og þá eykst sú vanlíðan kannski eftir því sem þau verða eldri og samkeppnin vex og þessi vanmáttartilfinning sem börnin geta fundið þá, ýmist félagslega eða gagnvart náminu. Og það er hugsanlegt, án þess að ég vilji nú dæma of mikið um það, að áherslur í skólakerfinu séu, þrátt fyrir miklar umbætur vissulega, enn þá of einhliða, enn sé of mikil áhersla lögð á að læra utan að, lesa bækur þar sem á að ná sér í þekkingu í gegnum það og kannski eru þá of mörg börn enn í því að einbeita sér að veikleikum sínum frekar en að þroska hitt sem liggur vel fyrir þeim. Í þessu sem öðru má þó ekki alhæfa.

Ég vil enda þessa stuttu ræðu með því að ítreka það sem ég lagði áherslu á í byrjun, jöfnuður á að vera algjört lykilatriði og leiðarljós við mótun menntastefnu. Við þurfum að nota menntastefnu til að auka jöfnuðinn (Forseti hringir.) í samfélaginu og við þurfum að auka jöfnuðinn í skólakerfinu.